Spilling hrein frá helvíte
Ég er sammála hægrimönnum. Lestur Marðar Árnasonar á Passíusálmunum er spilling.
Samt ekki af sömu ástæðu og þeir.
Það er sjálfur lesturinn sem er spilling. Spilling á texta séra Hallgríms.
Í fyrsta lagi: Sálmarnir eru sálmar. Kveðskapur. Í samræmi við það passaði Hallgrímur heitinn þokkalega upp á ljóðstafina sína, svo að hrynjandi yrði rétt þegar þeir væru lesnir eða jafnvel sungnir síðar.
Merði er andskotans sama um allan kveðskap. Hann les sálmana eins og þeir séu hver annar prósi eða frásögn, áherzlur á atkvæði eru út og suður, alveg án tillits til ljóðstafa, svo að hvorki verður rétt hrynjandi né syngjandi í sálmunum.
Hann gæti eins verið að lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar.
Þið getið sjálf hlustað á þessa hörmung í sarpi Ríkisútvarpsins hér.
Í annan stað: Af því að sálmarnir eru kveðskapur en ekki prósaljóð, þá reyndi Hallgrímur gamli líka að passa upp á rímið sitt.
Það er að vísu á köflum nokkuð skondið fyrir okkur nútímalesendur og -hlustendur vegna eins konar flámælis eða hljóðvillu sem Hallgrímur grípur til og hefur líklega verið honum eðlilegt.
Dæmi úr þriðja sálmi: Til að ríma við ´þreyttur sje´ notar Hallgrímur ´bæninne´. ´Fárleg sje´ er líka látið ríma við ´helvíte’. Viðlíka rímorð eru óteljandi í Passíusálmunum.
Merði er fjandans sama um rímið líkt og ljóðstafina og hrynjandina. Hann ber fram i þar sem í textanum er e, svo að rímið hverfur með öllu.
´Kann ske´ rímar við ´hjálpinne´. Það rímar ekki við ´hjálpinni´, eins og Mörður kýs að fara með textann.
Núnú. Kannske er Mörður bara að leggja síðbúið lið misráðinni herferð gegn meintri hljóðvillu. Það eitt myndi gera málstað hans enn verri, en hann er samt saklaus af því.
Mörður er nefnilega trúr textanum þegar hann les réttilega ´hvörn´ í staðinn fyrir hvurn eða hvern. Líka þegar hann les ´hönum´ í staðinn fyrir ´honum´.
Hvort tveggja var Hallgrími Péturssyni eðlilegur ritháttur á sinni tíð.
Hvurs vegna í Satan sjálfum að fylgja Hallgrími í hvörn og hönum, en ekki í helvíte og öllum hinum réttu rímorðunum?
Annað skáld orti svo:
Hljóðvillu og hrynjande
hunzar alveg þarna.
Brenni hægt í helvíte
hundinginn sá arna.
Eftir kynni til áratuga þykist ég vita að Mörður gæti sett á mjög – mjög – langan fyrirlestur til að réttlæta þessa misþyrmingu sína á Passíusálmunum. Ég nenni ekki að hlusta á hann.
Ekki frekar en þennan hrylling, sem er bæði klám og spilling á verki séra Hallgríms.
Ríkisútvarpið spyr ég hins vegar: Er nokkuð of seint að fá aftur lestur Jóns Helgasonar það sem eftir lifir til páska?
Að öðrum kosti: Er hægt að fá endurgreitt?
- Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont - 12/08/2019
- Um gamlar kærustur og nýjar - 02/07/2019
- Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum - 30/06/2019