Rétturinn til að smána og meiða
Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður hefur lagt talsvert á sig til að verja rétt manns til að svívirða, niðurlægja, smána og hæðast að fólki vegna kynferðis þess. Ef ég skil Helga Hrafn rétt vill hann meina að ekki megi skerða rétt fólks til að meiða aðra með orðum.
Ég er algjörlega ósammála því.
Þingmenn sem vilja berjast fyrir rétti fólks til svívirðinga ættu að nýta sér stöðu sína og leggja fram þingmál í þeim tilgangi. Það gætu þeir t.d. gert með því að leggja til breytingar á hegningarlögum og stjórnarskrá þar sem kveðið er á um mannréttindi, siðgæði og mannorð. Þeir gætu einnig barist fyrir breytingum á námskrám grunn- og framhaldsskóla þar sem sömuleiðis er víða kveðið á um rétt fólks, óháð trúarbrögðum eða kynferði. Þingmenn geta einnig reynt að hafa áhrif á tillögur stjórnlagaráðs í þeim tilgangi að auðvelda fólki að svívirða. Í þeim tillögum er sérstakur kafli um mannréttindi og mannlega reisn sem fellur illa að hugmyndum þingmannsins um frelsi fólks til að níðast á öðrum vegna kynferðis þeirra.
Það er því greið leið fyrir þingmenn að breyta leikreglum samfélagsins að þessu leyti til ef þeir í alvöru vilja það.
Annars eru þetta orðin tóm.
- Hugsanlega afdrifaríkur dómur - 26/03/2018
- Vandi Vinstri grænna - 23/01/2018
- Gamlar og vondar hugmyndir - 08/01/2018