Öld kvíðans
Síðasta öld hefur oft verið nefnd öld bjartsýninnar. Þekking hefur aldrei vaxið jafn mikið á einni öld og gríðarleg verðmæti voru sköpuð. Heimsbyggðin tengdist saman með alveg nýjum hætti. Í lok aldarinnar voru mannréttindi og lýðræði í sókn og fleiri nutu friðar en áður. Hugsjónir jafnréttis náðu áður óþekktum hæðum. Í Evrópu tókst að byggja upp upplýst samfélög með velferðarkerfi sem tryggði almenna menntun, aðgengi að heilsugæslu og aukinn jöfnuð í lífskjörum. Eins og staðan hefur verið það sem af er þessarar aldar mætti halda því fram að öld kvíðans hafi tekið við.
Bjartsýnisöldin byggðist á því að svo margt virtist vera öllum ríkjum í hag. Nú liggur fyrir að þau lönd sem virtust hafa það best lifðu um efni fram og ríkisstjórnir þeirra hafa sett gluggaumslagið í póst til nýrrar kynslóðar, en hún neitar að borga og vill halda áfram að búa við sömu gæði og fyrri kynslóð.
En gráhærðu árgangarnir fara ört stækkandi og á sama tíma minnkar hlutfall skattgreiðenda. Rekstur velferðarkerfisins kallar á hækkun skatta. Traustið fer minnkandi og nú vilja þjóðir einangra sig og sitja að sínu. Menn lærðu það á fyrri hluta síðustu aldar, að ef ekki yrði komið böndum á kapítalismann með því að koma í veg fyrir miklar sveiflur, myndi það valda kreppum til mikilla skelfinga hjá launafólki. Þessu virðast menn hafa gleymt undir lok síðustu aldar.
Þróun samskiptatækninnar tengdi saman þjóðir og jók bjartsýni, en í dag eykur hún vantraust og kvíða. Samskiptamiðlarnir magna spunann, lýðskrumið og umsvifalausa fordæmingu, sem hefur valdið aukinni tortryggni og leitt stjórnmálamenn inn á brautir hamslausrar vinsældakeppni. Sá sem segir sannleikann er umsvifalaust fordæmdur sem svikari. Fyrirlitning fólks á stjórnmálum er orðin ógn við lýðræðið. Hver á að veita leiðsögn, nú þegar óvinsælla og framsýnna ákvarðana er alls staðar þörf?
Ísland og Grikkland hafa verið holdgervingar alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Ástæður efnahagshamfara þeirra eru þó afar ólíkar. Ísland féll vegna þess að ofurskuldsettur einkageiri dró ríkið með sér niður en Grikkland felldi sig með gegndarlausri ríkisskuldabréfaútgáfu og hömlulausu útgjaldafylleríi. Stjórnmálamenn þessara landa földu sannleikann og drógu upp falska mynd. Hér má minna á orð þáverandi íslenskra ráðherra um íslenska efnahagsundrið og að norrænir kollegar þeirra ættu að fara endurmenntun úr þeir virtust ekki skilja snilli íslendinga. Snillin er fólgin í því að hafa handstýrðan gjaldmiðil sem reglulega er felldur og kostnaður færður yfir á launamenn.
Rótina að efnahagshamförnum má finna á auknu frjálsræði í fjármálaheiminum. Markaðir vissu allt og gátu, en ríkið þvældist fyrir. Ísland varð eitt helsta fórnarlamb hugmyndafræðinnar um hinn frjálsa markað. Þar var fjármálastofnunum og viðskiptamönnum gefinn laus taumurinn og fjármálamenn fóru að búa til eigin fjármálaafurðir án tillits til stöðugleika kerfisins. Afurðir sem reyndust á endanum með öllu verðlausar. Afreglun átti að leiða menn frá klíkuskap, pólitískri spillingu og sérhagsmunum, en hún leiddi samfélögin inn í stórkostlega eignatilfærslur frá almenning til fárra.
Heimsvæðingin snýst um að gera allan heiminn að einum vinnumarkaði og ná þannig sem mestri skilvirkni. Vestræn ríki með dýrt vinnuafl eiga í vaxandi erfiðleikum með að keppa við ódýrara vinnuafl í risasamfélögum Asíu. Ef það tekst ekki fellur kaupmáttur og atvinnuleysi eykst. Ríkisvald hefur verið að veikjast eins og hugmyndafræðileg tíska hefur líka meinað mönnum að beita þeim björgum sem ríkin búa þó yfir. Þær hafa misst vald bæði til alþjóðlegra markaða. Pólitískar ákvarðanir virðast í dag litlu skipta hvað varðar alþjóðamarkaðinn og þróun samfélaga heimsins.
Þar ráða aftur á móti greiningarhúsin miklu og spár þeirra leiða til hamslausrar keppni. Þau eru eins og spilavíti og fjárhættuspilararnir þeir viku aðeins úr salnum um tíma, en eru farnir að tínast aftur inn. Þetta eru reyndar sömu menn og áður þó svo að þeir hafi orðið uppvísir um að allt sem þeir greindu og spáðu reyndist rangt. Almannahagsmunir víkja fyrir hagsmunum fjármagnseigenda því þjóðirnar keppa í lækkun skatta vegna fyrirtækjanna. Það getur ekki leitt til annars en lakari skóla, veikari heilbrigðisþjónustu og skuldsettari þjóða.
Það er þrýstingur á að stéttarfélögin dragi úr sínum kröfum og laun hækki ekki. Kaupmáttur muni minnka verði það ekki gert. Arður fyrirtækjanna ræður öllu. Þessi keppni getur ekki leitt til annars en að þau samfélög sem við byggðum upp á síðustu öld muni hrynja og fórnað á altari samkeppninnar. Það vantar lög sem tryggja hagsmuni almennings gagnvart fjármagnseigendum. Það skortir alþjóðlega stjórn á hagkerfið sem tekur mið af heildahagsmunum. Það þarf að skilgreina upp á nýtt hver markmiðin eigi að vera.
- Skuggahliðar menningarinnar. - 26/04/2016
- Nei takk ómögulega. Það er nóg komið - 07/04/2016
- Þetta er ógeðslegt þjóðfélag - 04/04/2016