Ný stjórnarskrá tók ekki gildi
Íslandi var sett stjórnarskrá árið 1944 þegar lýðveldið var stofnað. Hún var snaggaraleg þýðing á danskri stjórnarskrá með rætur í konungsveldi, þessi stjórnarskrá var úrelt enda nánast sú sama og samþykkt var árið 1874.
Talsmenn þeirra sem nú fara með völdin hér á halda því fram að ástæðulaust sé að umbylta lýðveldisstjórnarkránni því hún sé svo „listilega smíðuð“ eins og forseti vor hefur sagt, eða ummæli höfundar Reykjavíkurbréfs um að hún sé „helgur gjörningur“,hvorki meir eða minna.
Var það skoðun helstu þáverandi stjórnmálaforingja þegar núverandi stjórnarskrá var borinn upp á Alþingi árið 1944? Hér nefni ég nokkur dæmi:
Eysteinn Jónsson, Framsóknarflokki: „Við megum ekki taka upp í lög um lýðveldisstjórnarskrá annað en það sem stendur í beinu sambandi við stofnun lýðveldis í stað konungdæmis … Síðan eigum við að vinna af kappi að því að endurskoða stjórnarskrána í heild og vinna að þeim breytingum sem gera þarf.“
Stefán Jóhann Stefánsson, Alþýðuflokki: „… er það skoðun allrar [stjórnarskrár]nefndarinnar að vinna beri hið bráðasta að því að fram fari gagnger endurskoðun á stjórnarskránni“.
Jakob Möller, Sjálfstæðisflokki: „Þessi fyrirhugaða stjórnarskrá, sem hér um ræðir, er hugsuð og í rauninni yfirlýst sem hrein bráðabirgðastjórnarskrá, þ.e.a.s., jafnframt því sem hún er samþykkt er gert ráð fyrir að stjórnarskrá ríkisins í heild verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar á næstu árum.“
Brynjólfur Bjarnason, Sósíalistaflokki: „… nú er það svo að við stofnun hins fullvalda íslenzka ríkis ríður oss öllu framar á þjóðareiningu. … Þess vegna held ég að flestir séu nú komnir á þá skoðun að það sem gert var með stjórnarskrárákvæðinu 1942 –að takmarka breytingar á stjórnarskránni við það sem leiðir af skilnaði við Danmörku og flutningi æðsta valds inn í landið, með öðrum orðum að útiloka fyrir fram öll þau deilumál sem ágreiningi gætu valdið – hafi verið hið eina rétta.“
Þetta útskýrir hina „rússnesku kosningu“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni um sambandsslit og lýðveldisstofnun vorið 1944. Fólk var framar öllu að kjósa um skilnaðinn við Danmörku.
Nær allir að sem einn sem tóku til mál sögðu að lýðveldisstjórnarskráin hefði verið saminn til bráðabirgða. Ólafur Jóhannesson lagaprófessor benti á nokkur atriði sem taka þyrfti til rækilegrar endurskoðunar áður en gengið yrði frá framtíðarstjórnarskrá hins íslenska lýðveldis.
Ólafur Lárusson prófessor í lögum tók dýpra í árinni, en var þó varkár að eðlisfari. „Endurskoðun stjórnarskrárinnar er því eitt af verkefnum náinnar framtíðar. Lýðsveldisstjórnarskráin í þeirri mynd sem hún hefur nú, er aðeins sett til bráðabirgða.“
Í nýársávarpi sínu 1949 kvartaði Sveinn Björnsson undan seinaganginum og hvatti þingheim og aðra til dáða : „Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins, rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. …Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.“
Stjórnarmálaflokkarnir vildu skipta um stjórnarskrá, t.d. samþykkti landsfundur Sjálfstæðisflokksins í nóvember 1951: „Fundurinn telur, að vegna þess, hve hér er um mikilsvert mál og einstætt að ræða, komi mjög til álita, að sérstakur þjóðfundur verði kosinn til afgreiðslu þess, enda verði ákvarðanir hans síðan bornar undir þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar.“
Landsfundur Framsóknarflokksins samþykkti árið 1950: „Níunda flokksþing framsóknarmanna skorar á Alþingi að gera þá breytingu á gildandi stjórnarskrá, að ný stjórnarskrá skuli samþykkt á sérstöku stjórnlagaþingi og síðan borin undir þjóðaratkvæði.“
Í skjóli ákvæða um konungsveldið þróaðist hér ráðherraræði og Alþingi varð valdalaus stofnun. Löggjafar- og framkvæmdavaldið færðist á hendur fárra. Þetta varð til þess að stjórnmálaöflin hafa ætíð komið í veg fyrir endurskoðun hennar.
Heiðarleiki virðist vera fjarri íslenskum stjórnmálum. Sagt er að vald spilli, en frekar má segja að vald laði til sín hina spilltu. Heilbrigðir einstaklingar laðast yfirleitt að öðrum hlutum en valdi. Vörn stjórnmálamanna og handbendi þeirra felst í að hefja blekkingarleiki til að friða eigin fylgi. Heiðarleiki virðist ekki eiga heima í íslenskum stjórnmálum, sama hvert formið er. Alltaf virðist spillingu takast að skjóta rótum eins og illgresi, sem kæfir allar aðrar plöntur, sem við viljum frekar rækta.
Í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. okt. 2012 samþykktu 67 % kjósenda að Alþingi skyldi fara eftir tillögum stjórnlaganefndar um nýja stjórnarskrá. 82% vildu að náttúruauðlindir væru í eigu þjóðarinnar, 77% vildu auka persónukjör til Alþingis, 71% vildu auka beint lýðræði. Allt eru þetta ákvæði í tillögum að nýrri stjórnarskrá. En þessi niðurstaða var andstæð þeim sérhagsmunum sem hluti alþingismanna ver. Þeirra túlkun var að þeir sem ekki mættu á kjörstað hefðu sagt nei, og bjuggu með því til allt aðra niðurstöðu. Á Íslandi er flokksveldi ekki lýðveldi.
Nýja stjórnarskráin átti að taka gildi 17. júní 2014 eða á 70 ára afmæli lýðveldisins. Í öllum lýðræðisríkjum lúta stjórnmálamenn án nokkurra skilyrða niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna. Þar gildir hið eina að öllum sé tryggður aðgangur að kjörklefa til þess að nýta sér vald sitt. Annað er grímulaus tilraun til valdaráns. Lýðræðið skrumskælt með því gera að engu niðurstöðu mikils meirihluta þeirra kjósenda sem mæta á kjörstað.
Vald þjóðarinnar er stjórnarskrárvarið og það er hún sem setur stjórnvöldum leikreglur. Þingmenn segja þjóðinni að gagnslaust sé að kjósa í ráðgefandi kosningum. Valdið liggi hjá þeim ekki þjóðinni. Hér birtist sá fáránleiki sem gjörspillt íslensk valdastétt hefur búið íslenskri þjóð.
Í þjóðaratkvæðagreiðslum ræðst niðurstaðan ætíð af vilja meirihluta þeirra kjósenda sem mæta á kjörstað og taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu. Vald sem ekki er sprottið frá þjóðinni verður aldrei annað en ofbeldi sem beint er gegn henni. Vilji þjóðarinnar er vilji samfélagsheildarinnar og sá vilji fer saman við almannahagsmuni.
Stjórnvald sem vill kallast réttmætt verður hverju sinni að lúta skilyrðislaust niðurstöðum í þjóðaratkvæðagreiðslum. Í þjóðaratkvæðagreiðslum eru mál sett í dóm allra kjósenda, þar sem æðsta valdið liggur. Þar er málið lagt undir alla þjóðina og úrslitin eru í höndum meirihluta þeirra sem mæta á kjörstað. Þeir sem ekki mæta eru að fela öðrum að greiða atkvæði fyrir sig.
Hvergi meðal lýðræðisríki kæmu nokkrum manni til hugar að taka sér það vald að túlka hvernig flokka eigi ógreidd atkvæði. En það var gert á Íslandi og fjölmiðlar tóku því sem sjálfsögðum hlut, það segir nánast allt um hvar í veruleikanum Íslensk þjóð er stödd.
- Skuggahliðar menningarinnar. - 26/04/2016
- Nei takk ómögulega. Það er nóg komið - 07/04/2016
- Þetta er ógeðslegt þjóðfélag - 04/04/2016