Launahækkanir milljónkallanna
Áður en vikið er að efni þessarar fyrirsagnar, tökum við upp þráðinn þar sem frá var horfið í síðasta pistli og höldum áfram að skoða skattpíningu hinna tekjulægstu. Síðast var fjallað um skattbyrði lægstu launataxta, en hér er röðin komin að öryrkjum. Lítum á línurit:
Hér sést skatthlutfall öryrkja, sem ekki hafa aðrar tekjur en frá Tryggingastofnun. Smellið á myndina til að stækka.
Skattbyrðin er hér sýnd sem hlutfall af reglulegum mánaðartekjum, án orlofs- og jólauppbóta og byggt á rauntölum hvers árs. Hvorki er tekið tillit til orlofsgreiðslna ofan á laun né frestun skattgreiðslu af iðgjöldum í lífeyrissjóð. Tölurnar ná aðeins aftur til 1996, en það var síðasta árið sem öryrkjar á strípuðum bótum voru ekki látnir greiða skatt.
Greinilegur munur er á þeim sem búa einir og hinum, sem deila íbúð með öðrum. Þetta stafar einfaldlega af því að öryrkjar sem búa með öðrum fá miklu lægri bætur. Munurinn er nú ríflega 30 þúsund á mánuði. Þessi hópur var undir skattleysismörkum allt fram til ársins 2003.
Athygli vekur mikil hækkun árið 2004. Svonefnd „aldurstengd örörkuuppbót“ var fyrst greidd það ár og var að hámarki ríflega 21.000 kr. Hjá þeim sem ekki búa einir fór nærri helmingur þeirrar upphæðar beint í skatt og ráðstöfunartekjur hækkuðu því mun minna en annars hefði verið.
Því má bæta við, að heildarskattbyrðin er í raun nokkru hærri en hér er sýnt. Í kjölfar pistilsins um lægstu launataxta barst mér tölvupóstur frá öryrkja sem býr einn og áætlaði skattbyrði sína um 16% á þessu ári, eftir að hafa tekið tillit til orlofs- og desemberuppbóta, útvarpsgjalds og meira en „meðalútsvars“. Tölum hans bar nákvæmlega saman við þær tölur frá Tryggingastofnun, sem hér eru notaðar.
Ellilífeyrir og atvinnuleysisbætur
Ég hef ekki undir höndum sambærilegar tölur varðandi ellilífeyri, en samkvæmt þeim upplýsingum sem þó er að finna á vef Tryggingastofnunar (og ná aftur til 1996), virðist sem elli- og örorkulífeyrir hafi að mestu haldist í hendur, en ellilaunin þó á köflum verið eitthvað lægri. Þar virðist samt ekki hafa munað miklu.
Ég hef heldur engar tölur um upphæðir atvinnuleysisbóta aftur í tímann, en þær eru nú 178.823 kr. á mánuði samkvæmt heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þessi upphæð er tæpum 10 þúsundum lægri en bætur öryrkja sem ekki búa einir. Af þessum peningum þarf samt að greiða yfir 20 þúsund í staðgreiðsluskatta.
Milljónkallarnir
Það kemur fleira athyglisvert í ljós þegar þróun skattbyrðinnar er skoðuð yfir lengri tíma. Þótt breytt viðhorf til þeirra, sem allra minnst bera úr býtum stingi mjög í augu er líka forvitnilegt að skoða skattbyrði annarra, ekki síst þeirra sem hafa mjög há laun og ég leyfi mér að nefna „milljónkallana“ í fyrirsögninni, enda geri ég ráð fyrir karlmenn séu talsvert stór meirihluti þeirra, sem hafa milljón eða meira í föst mánaðarlaun.
Þetta línurit sýnir ímyndaðan einstakling, sem allt frá 1988 hefur haft föst mánaðarlaun sem nemur fimmföldum lægsta taxta og er þar af leiðandi með nánast alveg slétta milljón á mánuði nú. Hér kemur í ljós að skattbyrði þessa manns hefur hækkað nokkuð fyrstu árin, úr 25% og upp í ríflega 30%. Síðan hélst hún nokkuð stöðug allt fram til 2008.
Þetta segir okkur að beinir skattar allra tekjuhópa hafa hækkað frá upphafi tímabilsins, en síðasta áratuginn fyrir hrun hækkuðu skattar langmest á þeim sem minnst bera úr býtum. Hálaunamenn stóðu í stað. Skattahækkun hálaunafólksins fyrstu árin er nánast hégómi í samanburði við þá hækkun sem allra tekjulægstu hóparnir hafa þurft að sætta sig við.
En svo gerist allt í einu nokkuð merkilegt. Eftir hrun tekur línan skyndilegt stökk og hækkar um nálægt 10 prósentustig. Þetta gerðist þegar skattkerfinu var þrepaskipt og stjórnvöld lögðu viljandi meiri byrðar á hina tekjuhærri.
Í krónum talið þýðir þetta gróflega, að þeir sem höfðu greitt 300 þúsund á mánuði þurftu allt í einu að leggja 400 þúsund á mánuði til samfélagsins. Tekjur þeirra eftir skatt lækkuðu sem sagt um 100 þúsund á mánuði.
Þess vegna þurftu milljónkallarnir að hækka launin sín
Og þegar maður horfir á þetta línurit, liggur allt í einu í augum uppi hvers vegna laun forstjóra, stjórnenda og fleiri hátekjumanna reyndust hafa hækkað gríðarlega, þegar tekjublöðin voru skoðuð í sumar. Vísir greindi frá því, að laun millistjórnenda hefðu hækkað um 13% og væru nú 2,2 milljónir á mánuði.
13% af milljón eru 130 þúsund og af 2 milljónum 260 þúsund, en af þeim peningum fara nú 46% í skatt. Hækkunin dugar því ekki fyrir skattahækkun línuritsins og við megum sjálfsagt reikna með að lesa um enn frekari hækkanir þegar tekjublöðin koma út næsta sumar.
Milljónkallarnir ráða margir hverjir launum sínum sjálfir, eða því sem næst. Og sé tekinn af þeim meiri skattur, hækka þeir bara launin sín nógu mikið til að útborgunin eftir skatt verði sú sama.
Er eitthvað hægt að gera?
Það segir sig sjálft að launamunurinn er kominn út í tóma vitleysu. En það er í rauninni ekkert einfaldara en að bæta úr þessu, þótt það náist kannski ekki í einu skrefi. Alþingismenn hafa það í hendi sér.
Það er ekki óeðlilegt viðmið að bótaþegar skuli vera skattlausir. Það gerist með hækkun persónuafsláttar og þar með skattleysismarka. Eðlilegt fyrsta skref er að koma atvinnulausum í skjól. Svo þarf að stíga fleiri skref.
Samhliða verður auðvitað ekki hjá því komist að hækka skatthlutfallið, hjá þeim sem við teljum hafa efni á að greiða skatt. Þannig er hægt að láta þetta kerfi virka líkt og það var hugsað í upphafi. Hlutfall hinna tekjulægstu af heildarupphæð tekjuskatts og útsvars er augljóslega mjög lágt. Af því leiðir að almenn skattahækkun þarf ekki að verða veruleg til að hið opinbera komi út á sléttu.
Það er líka hægt að leggja sérstakan jaðarskatt á ofurlaun, segjum tíföld laun þeirra sem vinna á lægstu töxtum. Væri slíkur skattur hafður nógu hár, t.d. 80-90%, yrði fyrirtækjum ókleift að hækka laun upp úr öllu valdi. Til að kreista fram 100 þúsund króna raunlaunahækkun, þyrfti nefnilega að hækka launin um 5-10 milljónir á mánuði. Og það er of dýrt.
Slíkur ofurskattur hefði líka önnur áhrif. Það eru Samtök Atvinnulífsins, sem semja við verkalýðsfélögin um lægstu launataxta. Og innan þeirra eru fjölmargir áhrifamenn sem hafa meira en tíföld lægstu laun. Fyrir hver 10 þúsund sem lægstu laun hækkuðu, gætu þessir menn þá hækkað sín eigin laun um 100 þúsund, án þess að lenda í ofurskattinum.
Væri það ekki hvetjandi?
- Að skella í lás - 10/08/2020
- Æra herra Negusar, Sniðugt á Íslandi og Búlúlala - 31/03/2020
- Jafnaðarkaup fyrir meðaltalsgamalmenni - 27/10/2019