Lágmarkslaun og jöfnun launa
Nýlega tilkynntu nokkrir þingmenn að þeir hygðust þegar Alþingi kæmi saman í haust fara að dæmi nokkurra erlendra kollega sinna og leggja fram frumvarp þar sem kveðið væri á um lágmarkslaun á Íslandi. Því miður er það oftast þannig þegar hlustað er á umfjöllun þingmanna um vinnumarkaðinn opinberast að margir þeirra hafa ákaflega takmarkaða þekkingu á því hvernig kaupin gerast á eyrinni.
Okkur sem störfum við það að greina og halda til haga þróun á vinnumarkaði er það oft umhugsunarefni hvernig stóð á því að í miðri Kreppunni náðist fram einhver verðmætasta löggjöf fyrir íslenska launamenn sem hefur staðið af sér allar breytingar á vinnumarkaði. Lögin um stéttarfélög og vinnudeilur eða vinnulöggjöfin eins og hún er oftast kölluð var lögtekin árið 1938 í kjölfar hennar urðu miklar breytingar á allri starfsemi verkalýðsfélaganna.
Þar er kveðið var á um skýlausan rétt manna til að stofna stéttarfélag í þeim tilgangi að vinna að sameiginlegum hagsmunum launamanna. Í kjarasamningum stéttarfélaganna eru lágmarkslaun ákvörðuð í viðkomandi starfsgrein á starfsvæði stéttarfélagsins. Skiptir þar engu um hvort viðkomandi launamaður sé félagsmaður í viðkomandi stéttarfélagi eða ekki. Mörg erlend stéttarfélög þar á meðal norræn, hafa ætíð öfundað íslensk stéttarfélög af þessu ákvæði vinnulöggjöfinni. Þarna er að finna ástæðu þess að nauðsynlegt hefur reynst að setja lög um lágmarkslaun í þessum löndum.
Það eru til tvenns konar kjarasamningar hér á landi, svokallaðir fastlaunasamningar og markaðslaunasamningar. Í fastlaunasamningum er kveðið á um röð ákveðinna launaflokka þar sem starfsheitum er raðið inn og síðan eru þrep með föstum starfsaldurshækkunum. Þetta er síðan túlkað á þann veg af stofnunum og fyrirtækjum, að þar séu verkalýðsfélögin búinn að ákveða fyrir fullt og fast að hvað viðkomandi starfsmaður eigi að hafa í laun.
Forstöðumenn stofnana og þingmenn segja síðan gjarnan; „Við vildum svo gjarnan greiða hærri laun, en því miður banna verkalýðsfélagin okkur það!!“ Vitanlega er það nú svo að í öllum kjarasamningum er samið um lágmörk og ekkert sem bannar fyrirtækjum eða stofnunum að greiða hærri laun. Enda bregður svo við þegar forstöðumenn og þingmenn ræða um sínar launahækkanir miða þeir ætíð við raunlaun á vinnumarkaði.
Á almenna vinnumarkaðnum hér á landi er oftast einungis samið um lágmarkslaun í kjarasamningum, atvinnuástand, hæfni og geta launamanns ráða síðan mestu um raunlaun viðkomandi.
Á opinbera vinnumarkaðinum hér á landi og á öðrum evrópskum vinnumörkuðum er hins vegar samið um öll taxtakerfin upp úr. Í nágrannalöndum okkar eru launamenn að langstærstum hluta ætíð á umsömdum launatöxtum og taxtarnir standast út samningstímann. Kaupmáttur er stöðugur, lán taka ekki stökkbreytingum og vextir þar eru einungis þriðjungur af því sem þeir eru hér á landi.
Þegar rætt er um lágmarkslaun er nauðsynlegt að taka tillit til þess að mjög stórt hlutfall launamanna á íslenskum vinnumarkaði er á launum sem liggur töluvert ofan við umsamin lágmarkslaun. Það sem skapar þessa íslensku sérstöðu er reglulegt gengisfall krónunnar.
Áratugum saman hefur íslenskum launamönnum verið gert að búa við það ástand að kjarasamningar standast aldrei út samningstímann, sökum þess að stjórnmálamenn fella reglulega krónuna og þá um leið eru launin gengisfelld til þess að leiðrétta slaka efnahagsstjórn með því að gera hluta launa upptækan.
Þetta íslenska ástand veldur því að oftast eru framkvæmdar launaleiðréttingar á vinnustöðunum á miðju samningstímabili. Vitanlega sérstaklega hjá þeim hópum og einstaklingum sem eru í bestri stöðu hverju sinni.
Mörgum verða á þau mistök að bera umsamdar launahækkanir í opnum markaðslaunakerfum saman við launahækkanir í föstum taxtakerfum. Þetta er útilokað því fastlaunakerfin með sínum skilgreindu töxtum breytast ekki á milli kjarasamninga. Það gera opnu markaðslaunakerfin á almenna vinnumarkaðnum hins vegar ekki.
Ef bera á saman launabreytingar af einhverju viti verður að taka raunlaun samskonar starfstétta og sambærilegan vinnutíma. Það að bera saman umsaminn lágmarksgólf í kjarasamningum segir okkur ekkert af viti.
Nauðsynlegt er að hafa í huga þegar rætt er um laun og samanburð, að á almennum markaði skiptir um 35% launamanna árlega um starf. Þetta er ein helsta ástæða launaskriðs á almenna vinnumarkaðnum en á sama tíma sitja fastlaunahóparnir á umsömdum töxtum.
Ef við víkjum aðeins að jöfnun launa kynjanna, þá sú jöfnun ekki framkvæmanleg að neinu viti nema að byrja á því að færa lágmarkstaxta að raunlaunum og raða öllum inn í umsaminn taxtakerfi. Sú aðgerð myndi kosta ríkið og aðra vinnuveitendur allt að 30% launahækkun í mörgum starfsstéttum, þá fyrst verður hægt að taka á þessum vanda með afgerandi hætti.
Ef síðan á að tryggja að jöfnun launakjara og útrýming kynjabundins launamunar haldi, verður að tryggja að kaupmáttur kjarasamninga haldist út samningstímann verður það ekki gert nema með því að taka upp gjaldmiðil, sem heldur þokkalega sínu raungildi út samningstímann hverju sinni.
Það sem ég óttast þó mest að sú tilraun sem stjórnmálamenn fari út í verði til þess að kippa niður raunlaunum niður á þá launataxta sem eru í fastlaunakerfunum. Það myndi þýða 30% launalækkun hjá stórum hópum.
- Skuggahliðar menningarinnar. - 26/04/2016
- Nei takk ómögulega. Það er nóg komið - 07/04/2016
- Þetta er ógeðslegt þjóðfélag - 04/04/2016