trusted online casino malaysia
Guðmundur Gunnarsson 28/11/2015

Ísal-deilan

Þær forsendur sem talsmenn Ísal/Ríó Tintó kynna í fréttum um að þeir séu að búa sig undir að loka álverinu sakir þess að þeir fái ekki að koma með verktaka inn á svæðið standast enga skoðun. Í viðtali RÚV við Rósu Guðbjartsdóttur formann bæjarráðs Hafnarfjarðar í vikunni kom fram að það séu sennilega hátt í 100 fyrirtæki í Hafnafirði sem eigi allt sitt undir því að eiga viðskipti við álverið. Það eru fyrirtæki sem eru verktakar á svæðinu og fyrirtæki sem vinna verk fyrir ÍSAL sem hafa verið úthýst þaðan.kárahn málmiðnaðarm að störfum

Upplýsingafulltrúi ÍSAL hefur haldið því fram að það sé úrslitaatriði hvað varðar rekstur álversins að þeim takist ekki að berja út ákvæði í kjarasamningum, sem hindra þá í að segja upp launalægsta starfsfólkinu og ráða verktaka í staðinn. Þessi fyrirsláttur Ísal er partur af leikjafræði – því hér er um að ræða vasapeninga í rekstrarkostnaði álversins. Það er stjórnun fyrirtækisins, ákvarðanir um endurnýjun búnaðar, rafmagnsverð, kaup á hráefni og verðlag framleiðslunnar sem ráða þessu.

Það er full ástæða til þess að rifja upp að ÍSAL óskaði árið 2006 eftir því við Hafnafjarðarbæ að fá að stækka verksmiðjuna, þannig að ná mætti meiri hagkvæmni í rekstrinum. Bæjarstjórn tók ekki illa í það og setti málið í eðlilegan farveg með atkvæðagreiðslu meðal íbúa Hafnafjarðar. Þeir virtust ætla að taka vel í málið.

En skömmu áður en atkvæðagreiðslan fór fram ákvað forstjórinn að segja upp 3 starfsmönnum. Þeir höfðu um 30 ára starfsreynslu hver og áttu skammt eftir í starfslokaréttindi. Þessir starfsmenn, sem aldrei höfðu fengið athugasemdir fyrir störf sín, voru sóttir fyrirvaralaust inn á svæði og þeim ekið að prívatskápum sínum. Þar var þeim skipað að taka allt sem þær ættu og var síðan ekið að hliði svæðisins. Þar eru þeir leiddir út fyrir og tilkynnt að þeim væri hér með sagt upp. Svona einsog þeir hefðu unnið einhver skemmdarverk á svæðinu.

Þarna sparaði fyrirtækið sér smá upphæð, þar sem fyrir lá að það myndi þurfa að greiða umræddum starfsmönnum áunnin starfslokaréttindi hefðu þeir fengið að starfa einu ári lengur. Starfsmenn sem höfðu varið öllum sínum besta starfsaldri fyrir Ísal var hent út fyrir hlið eins og gömlu drasli. Þessi ákvörðun gekk fullkomlega fram af öllum og vakti skiljanlega mikla reiði meðal starfsmanna og þeirra sem til þekktu. Umræddir einstaklingar höfðu alla sína tíð búið í Hafnarfirði og áttu stórar fjölskyldur og vinahópa í bænum. Þessi reiði skilaði vitanlega sér inn í atkvæðagreiðsluna og íbúar Hafnafjarðar höfnuðu stækkun ÍSAL. Þar munaði reyndar örfáum atkvæðum.

Í kjölfar þessa var ákveðið að auka framleiðslugetu álversins með því að gera breytingar á þáverandi kerskálum. Forstjórinn mætti í fjölmiðla og tilkynnti að þannig gætu þau lágmarkað þann skaða sem íbúar Hafnarfjarðar væru að valda. Stefnt var að því að fara í 20% framleiðsluaukningu en það tókst ekki betur til en svo að framleiðsluaukningin varð bara 8%. Þá var reynt að bjarga málinu með því að kaupa rándýran þurrhreinsibúnað frá Kína, sem reyndist vera mjög lélegur og þurfti að endurvinna að mestu hér heima til að hann yrði nothæfur.

Upphafssamningur við Landsvirkjun rann skömmu síðar út og Ísal varð að sætta sig nýjan raforkusamning árið 2010 með hærra raforkuverði. Ísal samdi þarna einnig um aukna raforkuþörf vegna væntanlegrar aukningu í framleiðslunni. Sú ætlun tókst ekki eins og rakið er hér ofar, þannig að Ísal varð að endurnýja raforkusamninginn árið 2014 og semja sig frá kaupum á aukinni orku. ÍSAL þurfti þar að greiða Landsvirkjun 17 milljónir Bandaríkjadollara, vegna kostnaðar sem hlaust af því að fyrir Landsvirkjun þurfti að flýta byggingu Búðarhálsvirkjunar. Þessi raforkusamningur skuldbindur Ísal til ákveðinna lágmarkskaupa á raforku til ársins 2036. Lokun vegna vinnudeilu losar ÍSAL ekki undan þeirri skuldbindingu.

Á þessum forsendum leyfi ég mér að velta fyrir því fyrir mér hvort hér sé verið að beita starfsmönnum Ísal fyrir sér í leikjafræði til þess að ná betri stöðu á taflborðinu gagnvart ríkisstjórninni og Landsvirkjun? Þessi vandamál ÍSAL eru augljóslega tilkomin vegna stjórnunar og hafa ekkert með starfsmenn að gera.

Í kjarasamningi starfsmanna er kveðið á um að ef ÍSAL lætur verktaka leysa af hendi verkefni á verksmiðjusvæðinu sem eru hliðstæð störfum starfsmanna ÍSAL og við hliðstæðar aðstæður skuli greiða sambærileg laun og viðhafa sömu kröfur um öryggisbúnað og starfsréttindi. Þetta er í fullu samræmi við gildandi lög á Íslandi. Skoðun aðeins vinnulöggjöfina.

Vinnulöggjöfin 1938

Það er umhugsunarefni hvernig stóð á því að í miðri Kreppu næst fram einhver verðmætasta löggjöf fyrir launamenn hér á landi. Löggjöf sem hefur staðið af sér allar breytingar á vinnumarkaði og mörg samtök launamanna, t.d. á hinum Norðurlöndunum, hafa öfundað íslensk stéttarfélög af. Lögin um stéttarfélög og vinnudeilur eða vinnulöggjöfin eins og hún er oftast kölluð var lögtekin árið 1938. Vinnulöggjöfin mótar samskipta- og leikreglur á íslenskum vinnumarkaði. Helsta markmið hennar var að tryggja vinnufrið í landinu og lágmarka þann skaða sem atvinnulífið í landinu gæti orðið fyrir vegna árekstra sem kynnu að skapast á milli aðila vinnumarkaðarins.

Í þessum lögum er kveðið var á um skýlausan rétt launamanna til að stofna stéttarfélag í þeim tilgangi að vinna að sameiginlegum hagsmunum verkalýðs og skyldu þau vera opin öllum í viðkomandi atvinnugrein. Reyndar tryggir stjórnarskráin þessi réttindi með ákvæðum um félagafrelsi. Hins vegar heimilaði vinnulöggjöfin fleiri en eitt stéttarfélag í sömu starfsgrein.

Þessi lög voru ákaflega skýr um að stéttarfélögum var tryggður réttur til þess að ráða sínum málum og hafðu skýlausan rétt til þess að gera kjarasamninga og þar með voru lágmarkslaun ákvörðuð í viðkomandi starfsgrein á því starfsvæði stéttarfélagsins sem samningurinn náði til. Það er þetta ákvæði sem mörg erlend stéttarfélög öfunda íslensk stéttarfélög af, og er ástæða þess að sum lönd eru að burðast með löggjöf um lágmarkslaun.

Við þurfum að huga vel að því að íslensk verkalýðshreyfing er að berjast á hnattrænum vinnumarkaði. Hnattvæðingin hefur leitt til harðnandi samkeppni um hver geti boðið lægstu kjörin. Mörg fyrirtæki hafa flutt úr landi til svæða þar sem kjör og réttindi eru margfalt lakari en hér. Það er óásættanlegt að íslensk stjórnvöld séu að gera fríverslunarsamninga við ríki sem ekki viðurkenna grundvallarmannréttindi. Við eigum að gera kröfu um að þau lönd sem Ísland gerir viðskiptasamninga við uppfylli allar grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Flokkun : Pistlar
1,267