Í tilefni landsfundar Sjálfstæðismanna – Stjórnskráin okkar
Það er full ástæða að vel halda til haga þætti fyrrv. forystumanna Sjálfstæðisaflokksins um breytingar á Stjórnarskránni. Bjarni Benediktsson var ásamt Gunnar Thoroddsen og Jóhann Hafstein í stjórnarskránefnd 1953. Bjarni kynnti tillögur þeirra félaga á fundi hjá Verði árið 1965. Margar tillögur þessara heiðursmanna er að finna í frumvarpi Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár sem voru samþykktar með auknum meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012.
- Sjálfstæðismenn lögðu til að „ef ekkert forsetaefni fær hreinan meirihluta við þjóðkjör, skuli kjósa að nýju milli þeirra tveggja, sem flest fengu atkvæði.“ Í samþykktu frumvarpi Stjórnlagaráðs stendur : „Kjósendur skulu raða frambjóðendum, einum eða fleirum að eigin vali, í forgangsröð. Sá er best uppfyllir forgangsröðun kjósenda, eftir nánari ákvæðum í lögum, er rétt kjörinn forseti.“
- Sjálfstæðismenn lögðu til að „annað hvort forseti hæstaréttar eða forseti Sameinaðs þings verði varaforseti“. Í frumvarpi Stjórnlagaráðs segir: „Geti forseti Íslands ekki gegnt störfum um sinn vegna heilsufars eða af öðrum ástæðum fer forseti Alþingis með forsetavald á meðan.“
- Sjálfstæðismenn lögðu til að „hæstiréttur dæmi í stað landsdóms um þau mál, er Alþingi höfðar gegn ráðherrum fyrir embættisrekstur þeirra.“ Í frumvarpi Stjórnlagaráðs er meðferð ráðherraábyrgðarmála færð frá landsdómi til almennra dómstóla.
- Sjálfstæðismenn lögðu til að „forsetinn skipi ráðherra og veiti þeim lausn í samráði við meirihluta Alþingis.“ Í frumvarpi Stjórnlagaráðs segir: „Alþingi kýs forsætisráðherra. … Forseti Íslands skipar forsætisráðherra í embætti. Forseti veitir forsætisráðherra lausn frá embætti eftir alþingiskosningar, ef vantraust er samþykkt á hann á Alþingi, eða ef ráðherrann óskar þess. Forsætisráðherra skipar aðra ráðherra og veitir þeim lausn.“
- Sjálfstæðismenn lögðu til að í stjórnarskrána „verði bætt þeim mannréttindaákvæðum, sem eru í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og samningi Evrópuráðsins um mannréttindi og frelsi.“ Þetta var gert, fyrst 1995 og mannréttindakafli Stjórnlagaráðs hefur hlotið góðan hljómgrunn hjá þjóðinni.
- Sjálfstæðismenn lögðu til að „að rétti héraða og sveitarfélaga til að ráða sjálf málefnum sínum … skuli skipað með lögum, enda sé að því stefnt, að þau fái sem víðtækasta sjálfstjórn í þeim málum, er þau sjálf standa fjárhagslegan straum af.“ Þessi ákvæði eru samþykktu frumvarpi Stjórnlagaráðs.
- Bjarni Benediktsson sagði um kjördæmaskipanina „Kosningaréttur sé svo jafn sem þjóðarhagir og staðhættir leyfa. Enginn landshluti hafi færri þingmenn en hann nú hefur, en þingmönnum verði fjölgað á hinum fjölmennari stöðum eftir því sem samkomulag getur fengizt um við heildarlausn málsins …“ Hér afhjúpar Bjarni gallann á að stjórnmálamenn skipti sér af endurskoðun stjórnarskrárinnar enda segir hann „? „ … ekki dugir að láta strjálbýlið bera fjöldann í þéttbýlinu slíku ofurliði, að hagsmunir fjöldans séu fyrir borð bornir.…“ Samþykkt frumvarp Stjórnlagaráðs kveður á um jafnt vægi atkvæða alls staðar á landinu.
Í frumvarpi Stjórnlagaráðs er lagt til að færa valdið til þjóðarinnar. Núverandi kosningakerfi er þannig uppbyggt að það tryggir stöðu núverandi stjórnmálaflokka og liðlega helmingur alþingismanna þarf aldrei að óttast næstu kosningar. Þeir eru í öruggum sætum, sem úthlutað er af flokkskrifstofum valdaflokkanna. Í nýrri stjórnarskrá er lagt er til að þessu verði breytt. Alræði ráðherra og embættismanna þeirra er minnkað í frumvarpi Stjórnlagaráðs og þingræðið styrkt. Á Íslandi hefur almenningur barist gegn því hvernig stjórnmálamenn gáfu auðlindir hafsins til fárra útgerðarmanna.
Í auðlindaákvæðinu í nýju stjórnarskrárfrumvarpi segir svo: „Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“ Þetta orðalag er í samræmi við í samræmi við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem hún gaf um kvótakerfið á Íslandi 2007. Í rökstuðningi mannréttindanefndarinnar er vitnað til 1. greinar íslenskra laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990, er segir: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“
Ávalt full samstaða um núgildandi Stjórnarskrá?
Forseti Íslands hefur ásamt talsmönnum og Sjálfstæðismanna haldið því fram að ástæðulaust sé að umbylta lýðveldisstjórnarkránni því hún sé svo „listilega smíðuð“ eins og forseti vor hefur sagt, eða ummæli höfundar Reykjavíkurbréfs um að hún sé „helgur gjörningur“,hvorki meir eða minna.
Var það skoðun helstu þáverandi stjórnmálaforingja þegar núverandi stjórnarskrá var borinn upp á Alþingi árið 1944? Hér nefni ég nokkur dæmi:
Eysteinn Jónsson, Framsóknarflokki: „Við megum ekki taka upp í lög um lýðveldisstjórnarskrá annað en það sem stendur í beinu sambandi við stofnun lýðveldis í stað konungdæmis … Síðan eigum við að vinna af kappi að því að endurskoða stjórnarskrána í heild og vinna að þeim breytingum sem gera þarf.“
Stefán Jóhann Stefánsson, Alþýðuflokki: „… er það skoðun allrar [stjórnarskrár]nefndarinnar að vinna beri hið bráðasta að því að fram fari gagnger endurskoðun á stjórnarskránni“.
Jakob Möller, Sjálfstæðisflokki: „Þessi fyrirhugaða stjórnarskrá, sem hér um ræðir, er hugsuð og í rauninni yfirlýst sem hrein bráðabirgðastjórnarskrá, þ.e.a.s., jafnframt því sem hún er samþykkt er gert ráð fyrir að stjórnarskrá ríkisins í heild verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar á næstu árum.“
Brynjólfur Bjarnason, Sósíalistaflokki: „… nú er það svo að við stofnun hins fullvalda íslenzka ríkis ríður oss öllu framar á þjóðareiningu. … Þess vegna held ég að flestir séu nú komnir á þá skoðun að það sem gert var með stjórnarskrárákvæðinu 1942 –að takmarka breytingar á stjórnarskránni við það sem leiðir af skilnaði við Danmörku og flutningi æðsta valds inn í landið, með öðrum orðum að útiloka fyrir fram öll þau deilumál sem ágreiningi gætu valdið – hafi verið hið eina rétta.“
Þetta útskýrir hina „rússnesku kosningu“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni um sambandsslit og lýðveldisstofnun vorið 1944. Fólk var framar öllu að kjósa um skilnaðinn við Danmörku.
Nær allir að sem einn sem tóku til mál sögðu að lýðveldisstjórnarskráin hefði verið saminn til bráðabirgða. Ólafur Jóhannesson lagaprófessor benti á nokkur atriði sem taka þyrfti til rækilegrar endurskoðunar áður en gengið yrði frá framtíðarstjórnarskrá hins íslenska lýðveldis.
Ólafur Lárusson prófessor í lögum tók dýpra í árinni, en var þó varkár að eðlisfari. „Endurskoðun stjórnarskrárinnar er því eitt af verkefnum náinnar framtíðar. Lýðsveldisstjórnarskráin í þeirri mynd sem hún hefur nú, er aðeins sett til bráðabirgða.“
Í nýársávarpi sínu 1949 kvartaði Sveinn Björnsson undan seinaganginum og hvatti þingheim og aðra til dáða : „Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins, rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. …Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.“
Það var einhugur um lýðveldisstjórnarskránna, en sá einhugur snerist um að hún væri einungis til bráðabirgða. En það eru ákvæði í núgildandi stjórnarskrá sem tryggja völd til fárra, og það gerðist. Ráðherraræðið varð alsráðandi og tryggði pilsfaldakapítalismann og helmingsskiptaregluna.
- Skuggahliðar menningarinnar. - 26/04/2016
- Nei takk ómögulega. Það er nóg komið - 07/04/2016
- Þetta er ógeðslegt þjóðfélag - 04/04/2016