Haltu kjafti fyrir milljónir
Ýmis konar spilling hefur þrifist ljómandi vel í íslenskri stjórnsýslu svo lengi sem ég man. Samt finnst manni stundum keyra um þverbak. Nú síðast þegar í ljós kemur, að innanríkisráðuneytið hafi greitt almannatengslafyrirtæki 2,4 milljónir fyrir ráðgjöf í tengslum við lekamálið, lögfræðistofu rúma milljón og lögreglustjóraembættið á höfuðborgarsvæðinu hafi borgað hátt í milljón fyrir ráðgjöf, aðallega í tengslum við sama mál.
Ég hef aðallega tvennt við þetta að athuga: Annars vegar felst ráðgjöf í svona málum einfaldlega í tveimur orðum, nefnilega „Haltu kjafti“. Hins vegar hefur ráðgjöfin ekki gagnast Þeim stofnunum sem greiddu reikningana, heldur einungis tilteknum einstaklingum innan þeirra, í þessum tilvikum ráðherra og lögreglustjóra.
Og í samræmi við það hefði verið eðlilegt að stíla reikninginn á þá einstaklinga sem fengu ráðgjöfina. Þessir reikningar eru ríkissjóði óviðkomandi.
Grundvallaraðferðafræði almannatengilsins er bæði einföld og sígild og fyrsta ráðleggingin er aðeins tvö orð: „Haltu kjafti“.
Næsta ráðlegging er næstum því jafn einföld: Svaraðu engum spurningum efnislega, heldur notaðu einfalda frasa, t.d. þennan:
Það er rétt að þessar ásakanir hafa komið fram. Þótt mér þyki ólíklegt að þær leiði til rannsóknar, er ekki hægt að útiloka það. Og með tilliti til þess, væri sennilega óráðlegt af mér að tjá mig um efnisatriði málsins.
Þriðja ráðleggingin er að svara spurningum með því að endurtaka þennan sama frasa nokkrum sinnum, en með dálitlum tilbrigðum, byrja t.d. á:
Mér þykir afar ólíklegt að þetta leiði til rannsóknar og því síður ákæru eða dóms, en …
Og svo að lokum þetta klassíska:
Því miður. Ég held að ég sé búinn að segja allt sem ég hef um málið að segja – meira að segja oftar en einu sinni. Þakka ykkur öllum fyrir komuna.
Víkur þá sögunni að síðartalda atriðinu.
Auðvitað er ráðgjöf af þessu tagi persónuleg. Og sá sem kaupir slíka ráðgjöf, á að sjálfsögðu að greiða fyrir hana úr eigin vasa. Sama gildir um lögfræðiaðstoð, sem fyrst og fremst gagnast embættismanni persónulega, en ekki embættinu sjálfu.
Sé það virkilega ekki lögbrot, að láta greiða fyrir slíka persónulega þjónustu úr ríkissjóði – þá er það eitt út af fyrir sig afar merkilegt.
Samtals virðast innanríkisráðuneytið og lögreglustjóraembættið hafa borgað vel yfir fjórar milljónir króna fyrir aðstoð lögfræðinga og atvinnubullara í tengslum við lekamálið. Aðstoð sem ekki verður séð að hafi gagnast öðrum en tveimur einstaklingum persónulega. Auðvitað er þetta skelfilega galið.
En svo óþolandi sem þetta er, þá er grundvallaratriðið samt annað: Embættismaður, hvort heldur hann er kjörinn eða ráðinn, á einfaldlega að gegna embætti sínu af fullkomnum heiðarleika og geta svarað fyrir allar sínar gerðir af einlægni og í fullri hreinskilni.
Slíkur embættismaður þarf ekki að borga neinum spunameisturum milljónir fyrir byrjendanámskeið í þeirri einföldu list að halda kjafti.
- Að skella í lás - 10/08/2020
- Æra herra Negusar, Sniðugt á Íslandi og Búlúlala - 31/03/2020
- Jafnaðarkaup fyrir meðaltalsgamalmenni - 27/10/2019