trusted online casino malaysia
Björn Valur Gíslason 08/05/2014

Fátt er betra en góð skonsa

Það er fátt ef nokkuð sem jafnast á við nýbakaðar skonsur með morgunkaffinu, sérstaklega á fimmtudögum. Það er væri þá einna helst góð skyrterta en þá erum við líka að tala um síðdegiskaffi eða jafnvel kvöldhressingu, sem er allt annað mál.

Skonsur finnst mér best að baka á góðri pönnukökupönnu (skemmtilegt orð) en það er einnig hægt að notast við annarskonar pönnur en þá er líka betra að hafa skonsurnar minni um sig. Það er auðvitað meiri byrjenda bragur af því að baka litlar skonsur sem gjarnan eiga það líka til að verða heldur ólögulegar og ekki eins fyrir augað og vel mótaðar pönnukökupönnuskonsur verða ef vel tekst til. En það er alls engin skömm af því, einhversstaðar verður fólk að byrja.

Gott er að eta skonsur með ostum og jafnvel ýmiskonar sultum, t.d. Chilisultu frá Maxi að ég tali nú ekki um heimalagaða bláberjasultu úr berjum tíndum af harðgerðu lynginu í utanverðum Ólafsfjarðarmúla.

Þar sem skonsurnar eru hringlaga og flatar (eins og jörðin er hjá sumum) er um að gera að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn við að framreiða þær. Sjálfur átti ég það stundum til hér áður fyrr að grípa grípa heila skonsu báðum höndum eins og hún koma sköpuð af pönnunni og gleypa í mig í einum eða tveim bitum. Það hefur verið alið úr mér sem betur fer. Nú geri ég bara það sem mig langar og er alls óhræddur við að prufa eitthvað nýtt. Það má t.d. skipta þeim í tvennt, nú eða fernt sem er mjög hentug stærð og styrkir sjálfstjórnina. Eða þá bara að fara bil beggja eins og sjá má á myndinni og örugglega margt fleira.

Aðalatriðið er þó að njóta skonsunnar allt frá því að hugmyndin að henni kviknar í kollinum á manni, þar til henni er skolað niður með rótsterku Bragakaffi (helst gulu) sem finna má í öllum betri alþýðubúðum landsins.

Nóg um það. Hér kemur skotheld uppskrift að skonsum:
1 bolli hveiti
1 bolli heilhveiti
¼ bolli sykur
2 egg
2 tsk ger
½ tsk natron (má vera ¾ ef maður vill)
1,5 bolli mjólk

Öllu er þessu hrært saman í rólegheitunum þar til það hefur blandast vel og síðan pönnubakað við 70% hita.

Bon appétit!

Latest posts by Björn Valur Gíslason (see all)
Flokkun : Pistlar
1,400