Fastmótuð viðhorf
„Fögur er hlíðin svo að mér hefur hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, mun ég ríða heim og fara hvergi.“ Svo mælti Gunnar á Hlíðarenda, hann vissi hvaða örlög biðu hans en hann kaus frekar að líta tilbaka en horfa fram á veginn. Bróðir hans Kolskeggur Hámundarson horfði hinsvegar fram á veginn og fór utan, en sagði við það tækifæri að hann væri ekki slíkt lítilmenni að ganga á bak orða sinna. Kolskeggur hélt síðan til núverandi ESB landa, með viðkomu í Noregi, þaðan til Danmerkur og var þar með Sveini konungi tjúguskegg og þaðan til Miklagarðs. Þar giftist hann og kristnaðist og var væringjaforingi og bjó í Miklagarði til dauðadags.
Einangrunarstefna og þjóðremba er ráðandi í íslenskri umræðu. Drýldin sjálfumgleðin og þjóðremban aldrei horft fram á veginn, sífellt horft til fortíðar og sagan endurrituð svo hún nýtist málflutning þeirra. Óþolinmæði og skeytingarleysi er áberandi. Keppni á öllum sviðum og umræðan einkennist af „með og á móti hópum“. Hin fastmótaða íslenska keppni sem heltekur öll samskipti samfélagsins. Ekki fer fram vitræn umræða heldur keppni í hvaða lið vinnur og getur náð athygli fjöldans í núinu og sigrað skoðanakönnun vikunnar.
Taumlaus græðgi, skeytingarleysi og óþolinmæði hafa verið áberandi í íslensku samfélagi. Skortur á heildarsýn og langtímamarkmið er veikleiki íslendinga. Á meðan rótgróin samfélög hugsa í mannsöldrum, gera íslendingar áætlanir í misserum. Mikið á að fást strax. Sá sem er of góðu vanur verður oft firringunni að bráð. Viðhorf þeirra sem sitja í valdastólunum einkennast af því að hafa safnað í kringum sig hópi sem hafa sömu skoðanir og þeir í þannig umhverfi verður allt svo einfalt og auðvelt. Töfralausnir á öllum vandamálum.
Umræðurnar sem risu eftir útspil Framsóknar í kosningarbaráttunni í Reykjavík staðfesta fyrir okkur hvar við erum stödd. Við höfum lifað svo lengi án íblöndunar og kunnum lítið í samskiptum við fólk sem hallast að öðrum trúarbrögðum og talar framandi tungumál. Við höfum fastmótaðar skoðanir.
Það rifjaðist upp fyrir mér um helgina atvik sem ég lenti í fyrir um tveim áratugum. Ég kom þá til Ísafjarðar með Fagranesinu eftir eina af mínum mörgu göngum um Hornstrandirnar og Jökulfirðina og gekk síðan út flugvöll með bakpokann og tjaldið á bakinu. Sendibíll sem var útbúinn til ferðalaga stoppaði hjá mér. Í honum var einn maður og hann bauð mér far út á flugvöll sem ég þáði.
Bílstjórinn var sannfærður um að ég væri útlendingur og talaði við mig á ensku alla leiðina út á flugvöll þrátt fyrir að ég svaraði honum ávallt á íslensku. Hann var fastur í því viðhorfi, eins og svo margir landa okkar, að maður sem gengi um þjóðvegi landsins með bakpoka væri erlendur.
Þegar við komum út á flugvöll stigum við báðir út og hann gekk með mér síðustu metrana að flugstöðinni. Við dyrnar snéri ég mér að honum og faðmaði hann og þakkaði honum með nafni fyrir ánægjulegt samtal og bíltúrinn. Þetta var fyrrum íslensku kennarinn minn úr Gaggó Aust.
- Skuggahliðar menningarinnar. - 26/04/2016
- Nei takk ómögulega. Það er nóg komið - 07/04/2016
- Þetta er ógeðslegt þjóðfélag - 04/04/2016