trusted online casino malaysia
Guðmundur Gunnarsson 06/11/2015

Can Iceland fuel Europe?

Eigum við að fórna náttúru Íslands?

Miðhálendi Íslands er einn mesti fjársjóður landsins. Þar má finna stærsta ósnortna víðerni í Evrópu. Stórbrotnar landslagsheildir og náttúrufyrirbæri með eldfjöllum, jöklum, vatnsmiklum ám og fossum. Litrík háhitasvæði, víðfeðm hraun og svartar sandauðnir sem kallast á við viðkvæmar gróðurvinjar. Kraftarnir sem náttúruöflin leysa úr læðingi, þ.m.t. samspil elds og íss, móta stöðugt þetta tilkomumikla landsvæði, en öræfakyrrðin sem á það til að umlykja ferðalanga er ógleymanleg hverjum þeim sem hana hefur upplifað.hjarta-landsins

 

Að finna megi á einu svæði á miðhálendi Íslands samansafn þeirra náttúruverðmæta sem hér er lýst er einstakt á heimsvísu. Að auki fer stórum óbyggðum svæðum, víðernum þar sem náttúran ræður ríkjum, stöðugt fækkandi í heiminum. Víðerni á Íslandi hafa minnkað um 68% frá árinu 1936 samkvæmt nýlegri rannsókn við Háskóla Íslands, það verður ekki gengið lengra.

 

En það virðist ekki vera skoðun ríkisstjórnar Íslands. Sigmundur Davíð hefur undanfarið verið í erlendum fjölmiðlum með yfirlýsingar að hann ætli sér ásamt Cameron forsætisráðherra Bretlands að leggja lengsta sæstreng í heimi eða 1,200 kílómetra til Bretlands til þess að tryggja rafmagnsöryggi Bretlands með Britain and Iceland volcano power project“

 

Ástæða er að halda því til haga að raforkunotkun Bretlands er 10 sinnum meiri en öll hugsanlega raforkuframleiðsla Íslands, hvað þá orkunotkun Evrópu. Til þess að geta gert það þarf að virkja nánast allt sem virkjanlegt er á landinu og leggja háspennulínur eftir þverar sveitir Norðurlands og yfir Sprengisand. Sigmundur Davíð segir það ekki koma til greina að leggja háspennustrengi fyrir Íslendinga og til verndunar íslenskrar náttúru, það sé alltof dýrt. En Landsvirkjun og Landsnet ætla ekki að gefast upp.

 

Menn sem koma með svona lausnir á vanda Breta og það með tandurhreinu rafmagni komast í fjölmiðla. Það er nú einmitt málið, freistingin. Stjórnmálamenn eru ekki í þeim flokki sem ráða hvað best við freistingar. Ríkisstjórn sem hefur tapað meir en helming af sínu fylgi og horfir framan í þá staðreynd að hann nái ekki að öllu óbreyttu endurkjöri grípa til örþrifaráða. Lofa takmarkalausum tekjum í þjóðarbúið með því að skella í nokkrar virkjanir og plögga þær í framlengingarsnúru til Bretlands. Ekkert væl lengur um mengandi stóriðju, bara gleði og gróði, virkjun og meiri virkjun.

 

Þolinmæði er ekki aðall stjórnmálamanna. Framsýn þeirra er takmörkuð við eitt kjörtímabil, þannig að líklegast skilar starfshópur forsætisráðherra innan skamms glimrandi fínni skýrslu sem sýnir að fátt sé betra en að setja milljarða í verkefnið. Ummæli íslenskra ráðamanna í eyru útlendra ráðamanna um að við höfum ofgnótt af tærri og gallalausri orku og milljarðar komi til með að streyma í ríkisskassa Íslands eru fjarri öllum veruleika

 

Sé málið skoðað betur getum við ekki skaffað einhverja orku sem einhverju máli skipti fyrir Breta. Jafnvel þó allt væri virkjað hér á landi sem hægt er að virkja. Dettifoss, Gullfoss ásamt gufuafli Landmannalauga, Torfajökuls, Kerlingafjalla og Kverkfjalla ásamt öllu Reykjanesinu svo maður tali nú ekki um Geysi. Þar með væri hryggbein ferðaþjónustunnar horfið og margir launamenn missti vinnuna. Engin orka eftir fyrir börn okkar og barnabörn. Öll náttúra Íslands væri í rúst.

 

Sérstæð og fjölbreytileg náttúra er aðal aðdráttarafl Íslands. Samkvæmt könnun Markaðs- og miðlarannsókna koma 80% erlendra ferðamanna til Íslands vegna náttúru landsins og um helmingur kemur hingað vegna miðhálendisins. Við Íslendingar erum í þeirri öfundsverðu stöðu að geta staðið vörð um þessi verðmæti hér á landi með því að vernda miðhálendið.

 

Það fælust í því mög tækifæri ef tækist að vernda þetta svæði í þjóðgarði. Náttúruvernd er undirstaðan því tækifærin byggja á því að náttúrugæðum miðhálendisins verði ekki raskað frekar og að víðerna- og óbyggða upplifunin sem þar er að finna hverfi ekki. Réttur almennings til útivistar og náttúrufræðslu innan þjóðgarðsins yrði einn hornsteina hans.

 

Þjóðgarðar hafa skapað mikil atvinnutækifæri og ferðamennska skapar í dag mun meiri gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbú íslendinga en stóriðjan og útgerðin. Sé hins vegar litið til áætlaðrar fjölgunar ferðamanna á næsta ári verða gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar orðnar meiri en samanlagðar tekjur af stóriðju og útgerð.

 

Það er skylda okkar í dag að tryggja að hægt verði að þróa enn frekar þá atvinnustarfsemi sem nýtir miðhálendið með sjálfbærum og ábyrgum hætti og spillir ekki náttúrugæðum miðhálendisins. Um leið erum við að skila landinu óspilltu til barna okkar.

 

Flokkun : Efst á baugi
1,316