Bryggjur ferðaþjónustunnar
Hvað skipti sköpum við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðsins (VJÞ)? Þar stendur hæst það samstarf sem tókst og sátt um nýtingu og vernd með aðkomu þeirra sem búa í eða í grennd við þjóðgarðinn. Það er algjört skilyrði að heimafólk hafi ríka aðkomu að stjórn garðsins. VJÞ var í upphafi minni en hann er í dag. Þar var valin sú leið að finna í upphafi þau svæði sem mest sátt væri um. Þegar starfsemi þjóðgarðsins var kominn í gang komu jafnvel þeir sem voru til að byrja með frekar neikvæðir, fram með tillögur um stækkun. Þjóðgarðurinn varð þannig aldrei sú ógn sem margir héldu í upphafi. Hann varð hins vegar tækifæri til þess að byggja upp atvinnu og mannlíf í skjóli náttúruverndar, útivistar og byggðaþróun.
Í því sambandi má t.d. benda á þau áhrif sem garðurinn hefur haft nú þegar- t.d. á Öræfasveit, ef ekki væri fyrir garðinn þá væru þetta nánast bara öræfi í orðsins fyllstu merkingu. Þar er í dag hins vegar blómlegt atvinnulíf vegna garðsins. Ferðaþjónustufyrirtækin eru smá og mörg og virðisaukinn verður eftir í héraðinu ólíkt t.d. stóriðjunni. Sem dæmi má nefna að þegar áin yfir Múlakvísl fór þá kom í ljós að milljarður væri í húfi, þ.e. ef ferðamenn kæmust ekki leiðar sinnar.
VJÞ hefur átt stóran þátt í þessum vexti ferðaþjónustunnar á svæðinu. Þjóðgarðurinn hefur reynst vera lykilaðili í þróun vetraferðamennsku og þjálfun og menntun fjallaleiðsögumanna. Það hefur síðan orðið til þess að það hafa verið stofnuð fyrirtæki sem eru með margskonar starfsemi í garðinum. Þannig hefur vetrarstarfsemi náð fótfestu á ýmsum stöðum og þessi fyrirtæki eru mörg hver með öfluga starfsemi og hafa á sínum vegum marga starfsmenn.
T.d. er í dag umfangsmikil starfsemi í Skaftafelli allt árið. Heilsárstarfsemi skiptir sköpum þegar leitað er eftir starfsfólki. Þetta hefur haft áhrif á allt samfélagið. Sem dæmi má nefna að það var á sínum tíma búið að loka barnaskóla á svæðinu vegna þess að það voru svo fáir nemendur eftir, en nú er búið að opna hann aftur og komnir fleiri nemendur en áður. Þessi öflugu fyrirtæki sem eru að byggjast upp eiga mikið undir þjóðgarðinum.
Þegar áhrif ferðaþjónustunnar og þjóðgarðsins eru skoðuð er hægt að hafa í huga samlíkinguna við sjávarútveginn. Það væri engin útgerð á Íslandi ef bryggjur hefðu ekki verið byggðar, skipin þurfa bryggjur til að koma auðlindinni í land. Ferðaþjónustan þarf líka sína bryggju til að tengja saman verðmætin og langmikilvægasta bryggjan á áhrifasvæði VJÞ er þjóðgarðurinn sjálfur.
Þjóðgarðar og það sem þeim fylgir, eins og aðgengi, merkingar, göngustígar og gestastofur, það eru bryggjur ferðaþjónustunnar. Þannig er vernd miðhálendisins orðið grundvallaratriði í umræðu um samfélagslega þróun hér á landi. Þar er lykilspurning hvaða aðstæður þurfum við að skapa þar?
Stjórnvöld eru þessa dagana að átta sig og setti 850 milljónir í ferðamannastaði sem liggja undir skemmdum. Þetta er í raun lítil upphæð miðað við umfang ferðamennskunnar í dag og þeirra tekna sem hún aflar í þjóðarbúið. Ferðamenn og sú þjónusta sem þeir eru að kaupa skilur eftir mikla fjármuni í sveitarfélögunum og styður þannig íslenskt samfélag um land allt.
Sé litið til stöðunnar er skynsamlegasta leiðin að gera miðhálendið að einni skipulagslegri heild. Það myndi hindra hagsmunaárekstra þar sem þjóðgarður á miðhálendinu væri eign allra landsmanna. Þannig yrði þjóðarsátt um svæðið. Algert grundvallaratriði að samráð væri haft við hagsmunaaðila um rammann sem skapaður væri utan um vernd svæðisins. Þar væri sátt um aðgengi og umferð um svæðið mikilvægust. Með öðrum orðum, að skýr og ásættanleg stefna væri um mismunandi verndarsvæði, þ.e. í ljósi þess að vernd er eitt form nýtingar þyrfti að vera skýrt hvað fælist í verndarflokkum Alþjóða náttúruverndarsamtakanna (sem hafðir eru til viðmiðunar þegar verndarsvæði eru mynduð). Þá kom einnig fram að tenging við heimamenn væri mjög mikilvæg; að hugmyndir um stjórnun og stýringu kæmu meðal annars úr nærumhverfi svæðisins og að ef unnið yrði að myndun þjóðgarðs á miðhálendinu þá þyrfti undirbúningurinn að vera settur í samfélagslegt samhengi m.t.t. sjálfbærrar atvinnuþróunar og nýtingar, framtíðarverðmæta og vöxt sveitarfélaganna sem þar eru.
Staður þar sem gestum fyndist þeir velkomnir og náttúrugæði og brugðist við sívaxandi ferðamannastraumi með nauðsynlegri stýringu, jafnframt sem að almannaréttur væri jafnvel betur tryggður en innan landa í einkaeigu. Reynslan af VJÞ hefur sýnt fram á að í þjóðgarði fælust mikil tækifæri til uppbyggingar og atvinnuþróunar nærsveitarfélaga. Einnig var nefnt að þjóðgarður á miðhálendinu myndi skapa sterka ímynd fyrir náttúruvernd jafnt sem sjálfbæra ferðaþjónustu á Íslandi og að hann gæti orðið táknmynd samvinnu og lýðræðis.
Náttúruvernd á að vera í fyrirrúmi en jafnframt að almannaréttur og aðgengi allra væri tryggt. Þar væri samráð og aðkoma hagsmunaaðila að stjórn og stýringu meginatriði, og að tekið yrði tillit til nýtingarréttar þeirra hópa sem áttu fulltrúa á fundinum; skynsamlegar reglur um sjálfbæra nýtingu bænda, uppbyggingu ferðaþjónustu, sjálfbæra nýtingu útivistarfólks (akandi, veiðandi, gangandi). Þá þyrfti stefnumótun um mismunandi ferðaþjónustu á mismunandi svæðum og að tekið væri tillit til helgunarsvæða útivistarfélaga.
Allar virkjanahugmyndir ættu að vera utan eða í jaðri þjóðgarðsins og að til að tryggja vernd yrðu reglur Alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN nýttar til verksins, Skynsamlegast að vernda miðhálendið sem eina skipulagsheild gegn hugmyndum um uppbyggða vegi og háspennulínur. Þeir virkjanakostir sem eru innan skipulagsheildarinnar eru smáir og allir í verndar- eða biðflokki Rammaáætlunar. Stærri virkjanaframkvæmdir eru utan eða í jaðri skipulagsheildarinnar. Samstaða er um að við skipulag þeirrar verndar verði verndarflokkar IUCN hafðir að leiðarljósi, enda geti svæðið verið flokkað í mismunandi stranga/væga verndarflokka.
Stutt samantekt á verndarflokkum Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna:
Friðlýsingar skiptast í nokkra flokka og byggist sú flokkun meðal annars á viðmiðum
Alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN. Mikilvægt er að átta sig á að þjóðgarður getur skipst upp í mismunandi verndarflokka. Flokkarnir eru eftirfarandi:
FLOKKUR I a
Landsvæði sem er stjórnað einkum vegna vísindalegs gildis vegna:
- sérstæðs gróðurfars, dýralífs eða jarðmyndana
- sérstaks landslags eða landslagsheildar
- menningarminja eða sögu
- útivistargildis
- fræðslugildis
FLOKKUR I b
Stór landsvæði sem eru lítt snortin og óbyggð, hafa að mestu viðhaldið náttúrufarslegum einkennum sínum og ástæða þykir til að vernda vegna:
- Almenns aðgengis núverandi og komandi kynslóða
- Menningarlegra og andlegra gilda, s.s. einveru, virðingar við forfeður, virðingar við heilaga staði, osfrv.
- Sóknarfæra á sviði menntunar- og vísindalegra málefna
- Tækifæra infæddra (e. Indigenous communitites) til að viðhalda hefðbundnum lifnaðarháttum og siðum sem byggja á sjálfbærri nýtingu náttúrunnar
FLOKKUR II
Landsvæði sem ástæða þykir til að vernda fyrir núverandi og komandi
kynslóðir vegna:
- sérstæðs landslags og náttúrufars
- vistfræðilegrar heildar
- sögulegrar helgi sem hvílir á svæðinu
- sóknarfæra á sviði andlegra og vísindalegra málefna, fræðslu og
útivistar sem samrýmast umhverfi og menningu
FLOKKUR III
Náttúrumyndanir á landi eða í sjó sem ástæða þykir til að vernda
vegna fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna, t.d.:
- Fossar, eldstöðvar, hellar, drangar
- Fundarstaðir steingervinga, sjaldgæfra steintegunda og steinda
FLOKKUR IV
FRIÐLÝSING LÍFVERA
Lífverur sem miklu skiptir að ekki verði fækkað eða útrýmt vegna:
- náttúrufræðilegra eða annarra menningarlegra sjónarmiða
BÚSVÆÐI
Svæði á landi eða í sjó sem ástæða þykir til að vernda vegna:
- mikilvægis fyrir tiltekna tegund. Þannig er tegundinni tryggt
athvarf án tillits til landslags, útivistargildis eða annarra
utanaðkomandi þátta
VISTKERFI
Svæði sem miklu skiptir frá vísindalegu, náttúrufræðilegu
eða öðru menningarlegu sjónarmiði að verði ekki raskað.
FLOKKUR V
Landsvæði sem þykir ástæða til að vernda vegna:
- Sögulegs samspils manns og náttúru sem hefur leitt af sér svæði sem býr yfir einkennandi vistfræðilegum, líffræðilegum og menningarlegum gildum og landslagsheildum.
- Þar sem mikilvægt þykir að vernda svæðið í ljósi samofinna áhrifa framangreindra gilda.
FLOKKUR VI
Svæði þar sem vistkerfi og búsvæði eru vernduð samhliða því að hlúð er að menningarlegum gildum og hefðbundin nýting náttúruauðlinda er leyfð, þ.e. hluti svæðisins nýttur undir sjálfbæra og vistvæna nýtingu (e. Low-level non-industrial) náttúruauðlinda. Svæði þar sem framangreind áhersluatriði hafa jákvæð áhrif á hvort annað.
- Skuggahliðar menningarinnar. - 26/04/2016
- Nei takk ómögulega. Það er nóg komið - 07/04/2016
- Þetta er ógeðslegt þjóðfélag - 04/04/2016