Bananalýðveldið Ísland
Davíð Oddson myndaði vorið 1995 ráðuneyti með Framsóknarmönnum og kvaddi Alþýðuflokkinn eftir kosningarnar. Eitt af markmiðum þessarar ríkisstjórnar var að gera endurbætur á vinnulöggjöfinni, sem hafði staðið óbreytt frá árinu 1938. Mörgum stjórnmálamönnum fannst að koma yrði skikki á hvernig staðið væri að verkföllum af hálfu verkalýðsfélaganna.
Fram kom í réttlætingu þessara valdaflokka að verkföllum hafi verið of oft beitt til þess eins að koma höggi á stjórnvöld, fremur en að vera nýtt sem baráttutæki í kjarabaráttunni. Mest áberandi breyting nýrrar vinnulöggjafar var sú að verkalýðsfélag gæti ekki boðað til vinnustöðvunar án þess að yfir stæði kjaradeila. Heimilt er þó að boða til samúðarverkfalls eftir ákveðnum reglum.
Páll Pétursson þáv. félagsmálráðherra lagði fyrir Alþingi vorið 1996 lagafrumvarp sem miðaði að því að færa sem mest af ákvörðunartöku til félagsmanna og koma í veg fyrir að stjórn og trúnaðarráð stéttarfélaga gæti einhendis ákveðið og tilkynnt verkfall. Tryggja átti að allir félagsmenn kæmu að ákvörðun um verkfallsboðun, samfara því að einskorða notkun verkfalla við kjarabaráttuna.
Sett eru skilyrði fyrir boðun vinnustöðvana, t.d. að samningskröfur verkalýðsfélags væru lagðar fram í upphafi viðræðan og ef viðræður aðila væru árangurslausar yrði að leita til sáttasemjara með deiluna. Þá fyrst var hægt að leita eftir heimild til félagsmanna um boðun verkfalls.
Sáttasemjara var heimilað, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu, þ.e. tillögu sem næði til margra hópa, það að tengja mætti saman vinnudeilur var nýlunda. Markmið þessa ákvæðis var að gera tilraun til þess að koma í veg fyrir að litlir hópar gætu klofið sig frá sameiginlegum viðræðum og tekið samfélagið kverkataki í verkfalli.
Gagnrýni á Pálslögin beindist helst að því að ríkisvaldið væri með þessum reglum að hafa of mikil afskipti af því hvernig samskipti aðila á vinnumarkaði þróuðust, eðlilegra væri að þessir aðilar settu sér sjálfir samskiptareglur. Einnig var gagnrýnd sú áhersla sem lögð var á að tengja saman óskylda hópa og flutningi valds til heildarsamtaka.
Nú eru þessir gömlu valdaflokkar komnir í stjórnarráðið og þeir ganga harkalega fram í því að eyðileggja endanlega verkfallsréttinn. Fjölmiðlar hafa markvisst og ötullega verið nýttir til þess að níða markvisst niður þau stéttarfélög sem hafa verið í kjaradeilum. Viðtölum er beitt þar sem leitað er uppi fólk sem telur á sér brotið með verkfallsaðgerðum.
Verkfallsrétturinn er heilagur réttur launafólks til þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér í kjara- og réttindabaráttu við stjórnvöld og fyrirtækjasamsteypur.
Hanna Birna hefur ásamt öðrum ráðherrum mætt í fréttatíma fjölmiðlanna og tekið viðtal við sjálfa sig þar sem hún segist hafa allan rétt í sinni hendi og stuðning landsmanna og vísar þar gjarna til hinna skrumsskældu viðtala.
Hvers vegna eru Pálslögin ekki nýtt?
Hvers vegna er sáttasemjara ekki gert skylt að leggja fram sáttatillögu sem félagsmenn geti síðan tekið afstöðu til?
Núverandi ríkisstjórn er markvisst að færa lýðveldið Ísland áratugi aftur í tímann og það að bananalýðveldi í heimshluta þar sem eru mestu lýðræðisríki þessa heims.
- Skuggahliðar menningarinnar. - 26/04/2016
- Nei takk ómögulega. Það er nóg komið - 07/04/2016
- Þetta er ógeðslegt þjóðfélag - 04/04/2016