Alið á óeiningu innan samfélagsins
Íslenskir múslimar glöddust þegar þeir fengu loksins úthlutað lóð við Suðurlandsbraut í september í fyrra, en þeim var í framhaldi af því gert að sitja undir andstyggilegum ummælum samlanda sinna, öfgamanna sem gengu svo langt að dreifa blóðugum svínshöfðum á lóðina.
Oddamaður á lista Framsóknar í Reykjavík hefur nú tekið undir þessi viðhorf og daðrar þar við þjóðernishyggju og hvetur til óeiningar milli menningar- og trúarhópa.
Það er vitanlega ákaflega gott þegar fólk kemur fram í kosningabaráttu með hreinskilnum hætti. Kjósendur hafi það þá á hreinu hvaða stefnu þeir styðji með atkvæði sínu. Einn af meginforystumönnum Framsóknar hefur stigið fram með afgerandi hætti og lýst stefnu flokksins í trúmálum. Hún er efsti maður á lista flokksins í höfuðborginni, formaður félags framsóknarkvenna og einstaklingur sem hefur fengið eindreginn stuðning ráðherra flokksins.
Viðhorf sem eru fjandsamleg útlendingum hafa ítrekað komið fram meðal þingmanna Framsóknarflokksins. Fjölmörg ummæli Vigdísar Hauksdóttur. þingmanns, benda til slíkra viðhorfa. Svipuð ummæli má auk þess finna hjá fleirum þingmanna flokksins.
Ummæli Sigmundar Davíðs ala endurtekið og markvisst á þjóðrembu og andstöðu við allt sem erlent er (xenófóbíu). Orðræðu sem tengir útlendinga við afbrot og sjúkdóma. Ummæli þessa fólks einkennast þar að auki á mikilli einföldun og þekkingarleysi á sögu og þróun íslensks samfélags. En það verður ekki litið framhjá þeirri staðreynd að Framsókn hefur sótt fjölmörg atkvæði á þessi mið.
Ísland var lengi afskekkt og samfélagið hér varð afar einsleitt. Nú er samfélag okkar hins vegar að breytast mjög hratt og við höfum séð í öðrum löndum Evrópu hversu ofsafengin viðbrögð fjölmenningarsamfélög geta framkallað, jafnvel í samfélögum sem eru talin meðal hinna friðsamlegustu í heimi eins og t.d. Svíþjóð og Danmörk.
Vonandi verða ummæli borgarstjórnarframbjóðenda Framsóknar til þess að fólk haldi vöku sinni. Lýðræði og mannréttindi eru ekki sjálfsagður, sjálfgefinn hlutur. Sagan kennir okkur að við þurfum og verðum að berjast fyrir umburðarlyndi, mannréttindum og lýðræði.
- Skuggahliðar menningarinnar. - 26/04/2016
- Nei takk ómögulega. Það er nóg komið - 07/04/2016
- Þetta er ógeðslegt þjóðfélag - 04/04/2016