Aðdragandi Þjóðarsáttarinnar
Undanfarið hefur töluvert verið rætt um aðdraganda og gerð Þjóðarsáttarinnar árið 1990. Undirritaður var einn af þeim sem tók þátt í miklum nefndarstörfum á vegum ASÍ á þessum árum þegar undirbúningur þessa umtalaða samnings hófst árið 1988 og sú vinna stóð í 4 ár. Mikið þurfti til þess að ná samtakti innan verkalýðshreyfingarinnar og síðan að fá stjórnvöld til þess að ganga í takt við atvinnulífið.
Tímabil viðreisnarstjórnarinnar var óvenjulega langt sé litið til annarra ríkisstjórna, en þegar hún fór frá var sem allar stíflur viðnáms stjórnvalda í efnahagslegu tilliti brystu og meðalverðbólga árin 1973 – 1983 rauk upp og varð 46,5%, lægst rúm 31% árin 1976 – 1977, en hæst 84,3% árið 1983, ef styttri tími er mældur er hæsti toppurinn 132% yfir 4 mánuði árið 1983. Á áratugnum 1980 – 1990 voru gerðir kjarasamningar sem innifólu um 1.600% launahækkanir. Á þessum tíma var tíðni gengisfellinga mikil og verðbólgan hækkaði því enn meir, sem olli því að kaupmáttur launa féll á sama tíma um 10%.
Kaupmáttur launa lækkaði verulega í upphafi árs 1984, en samtök launþega og atvinnurekenda á almennum vinnumarkaði sömdu þó um tiltölulega litlar launahækkanir í þeirri von að verðbólga héldist lág. Þáttur ríkistjórnarinnar fólst í að hækka barnabætur og persónuafslátt, ásamt því að fresta afborgunum af verðtryggðum húsnæðislánum. Þann 21. febrúar 1984 er undirritaður nýr kjarasamningur milli ASÍ og VSÍ sem innifelur um 13,6% launahækkun á samningstímanum til 15. apríl 1985. Auk þess átti að verja 306-330 milljónum króna til að bæta kjör hinna verst settu, stærstur hluti þessara fjármuna fór í hækka tekjutengdar barnabætur. Í sambandi við það ferli sem þarna er að hefjast er ástæða að geta þess að Dagsbrún réði árið 1983 ákaflega færan hagræðing Þröst Ólafsson sem átti eftir að hafa merkjanleg áhrif á stefnumörkun félagsins í kjaramálum.
Atvinnuástand á almennum vinnumarkaði var mjög gott á þessum tíma enda stórverkefni í gangi, þar á meðal er hafin vinna við að reisa nýja flugstöð á Keflavíkurflugelli. Samið hafði verið við bandarísk stjórnvöld um allt að 20 milljón dala framlag í flugstöðina, gegn því að herinn gæti nýtt hana á friðartímum. Á sama tíma eru öflugir aðilar í verslun og þjónustu að reisa nýja stóra verslunarmiðstöð í Reykjavík undir nafninu Kringlan, sem veitti stórum hóp byggingariðnaðarmanna vinnu. Af þessum orsökum er mikið launaskrið í byggingariðnaði, sem hafði venjubundin ruðningsáhrif á kjörin á vinnumarkaðinum.
Opinberir starfsmenn voru hins vegar ákaflega ósáttir við sína stöðu og höfnuðu alfarið að sætta sig við einungis 3% launahækkun. Þeir töldu sig hafa dregist langt aftur úr almenna vinnumarkaðnum vegna hins mikla launaskriðs á almenna markaðnum. Þar að auki hefði verið mikið skrið á almennu verðlagi, gagnvart því stæðu opinberir starfsmenn uppi algjörlega bótalausir. Þeir gerðu kröfu um 30% launahækkun. Bókagerðarmenn voru sömu skoðunar og náðu í gegn nýjum kjarasamning þ. 22. október 1984 með allt að 24% launahækkun eftir 6 vikna verkfall.
Í kjölfar þessa semja opinberir starfsmenn eftir tæplega mánaðarlöng og umfangsmikil verkföll. Þeir undirrita nýja kjarasamningar 30. október með 20% meðalhækkun heildarlauna á samningstímanum, en allt að 24% hækkun á lægstu taxta. Í samningunum er ekki um neina vísitölu- eða kaupmáttartryggingu launa að ræða, en hins vegar eru samningarnir uppsegjanlegir 1. september 1985, annars hækki laun 1. nóvember um 10%. Það kom víða fram þegar þessi mál voru rædd á kaffistofum stéttarfélaganna að hér hefði flokkspólitík ráðið för, hagsmunir landsmanna settir til hliðar og barátta um völd látin ráða för.
Spíraláhrifin létu ekki á sér standa og 6. nóvember undirrita ASÍ og VSÍ nýjan kjarasamning. Launahækkanir í samningnum áttu í lok gildistímans að haf náð um 23% til 24%. Engin ákvæði voru um tryggingu kaupmáttar, en hins vegar endurskoðunarákvæði með uppsögn á tímabilinu frá apríl og fram í miðjan júní. Næðist ekki samkomulag um framlengingu samningsins átti hann að renna sjálfkrafa út 1. september, að öðrum kosti átti hann að gilda til loka ársins 1985.
Þetta var algjörlega í andstætt þeirri raunsæisstefnu sem nokkrir innan ASÍ studdu og hringekjan var aftur kominn á fullt og hið fyrirsjáanlega gerðist, gengi krónunnar er fellt um 12% 20. nóvember. Í umræðum fyrr á árinu komu fram væntingar um að verðlagshækkanir myndu verða innan við 10% á árinu, en í árslok nam hækkunin hins vegar um 30%. Þetta ár eru hins vegar stigin stór skref undan höftunum í átt til verðlags- og vaxtafrelsis. Verðlag er gefið frjálst í febrúar 1985 og bönkum heimilað að móta eigin vaxtastefnu. Jafnframt er unnið að setningu kvótakerfis því komið á í ársbyrjun 1985.
Á vordögum hafði VSÍ frumkvæði að fundum með ASÍ um endurnýjun kjarasamninga og bauð upp á langtímasamning eða út árið 1986. Nýr kjarasamningur milli ASÍ og VSÍ var undirritaður í 15. júní 1985. Hann fól í sér kauphækkanir á bilinu 13 til 15%, en lágmarkstaxtar hækkuðu um 17%. Gengið var þannig frá samningnum að hann varð hluti af gildandi kjarasamningi og rann því út í árslok 1985. Í októberbyrjun 1985 uppgötvast hins vegar að Albert Guðmundsson fjármálaráðherra hafi einhendis gert kjarasamning við samtök opinberra starfsmanna um 3% launahækkun umfram það sem um var getið í gildandi kjarasamningum.
Þetta varð til þess að forysta ASÍ stormaði samdægurs niður í Stjórnarráð og ræddi við Steingrím Hermannsson forsætisráðherra og Þorstein Pálsson formann Sjálfstæðisflokksins, þeir sóru af sér að hafa haft nokkra vitneskju um athafnir Alberts og þessi samningur kæmi þeim jafnmikið í opna skjöldu og forystu aðila vinnumarkaðsins. Niðurstaðan varð sú að samið var 16. október um að hækka öll laun innan ASÍ um 3% til viðbótar við gildandi samninga. Nokkrum dögum síðar er Albert gerður að iðnaðarráðherra og Þorsteinn tekur við fjármálaráðuneytinu, það var reyndar búið að ákveða þau skipti nokkru fyrr í stjórn Sjálfstæðisflokksins og alþekkt að Albert var ákaflega ósáttur við þá ákvörðun. Ríkisstjórnin lét gengið síga nokkrum dögum eftir gildistöku þessara kjarasamninga, enn eina ferðina sátu heimilin uppi með hærri skuldir eftir vanhugsaðar athafnir stjórnmálamanna.
Atburðarásin árið 1985 renndi enn styrkari stoðum undir sjónarmið raunsæismanna í verkalýðshreyfingunni. Fram til þess hafði atburðarásin verið sú, að litið var til þess kaupmáttar sem menn töldu sig hafa samið um í síðustu kjarasamningum, en menn voru vart staðnir upp frá undirritum kjarasamninga er stjórnvöld felldu gengið að kröfu atvinnurekenda. Þar kom svo berlega fram óábyrg vinnubrögð samningamanna atvinnurekenda og ekki síður staðfesting stjórnmálamanna í formi gengisfellingar. Hringnum var síðan lokað þegar stjórnmálamenn hófu hina reglubundnu gagnrýni á verkalýðsforystuna, það væri verkalýðshreyfingunni til skammar hversu slök launin væru, það tengdu stjórnmálamenn síðan við það að slök staða umsaminna launa kæmi í veg fyrir að þeir gætu lagfært bótakerfið, þar sem bætur gætu aldrei orðið hærri en lægstu taxtar á vinnumarkaði.
Afleiðingar þessa hráskinnaleiks fyrirtækjanna og stjórnmálamannanna lentu þannig ávalt á baki þeirra sem lágu á lægstu töxtum launakerfanna og höfðu minnst á milli handanna. Óþol meðal almennings vegna þessa fór vaxandi og krafist var annarra vinnubragða við gerð kjarasamninga, sem m.a. birtist á samningafundum í byrjun ársins 1986 til undirbúnings endurnýjunar kjarasamninga, þar eru á dagskrá efnahagslegar forsendur, verðbólga, gengisþróun, verðlag dagvöru, staða heimilanna, skuldir og vextir lána.
Í vinnu landssambandanna innan ASÍ er mörkuð ný stefna og eftir að hafa unnið úr sameiginlegum gögnum fara forystumenn aðila vinnumarkaðsins á fund ríkisstjórnarinnar og krefjast þess að fá í hendur skýra afstöðu hennar í gengismálum, fjármálum ríkisins og vaxta- og peningastefnu. Mikil hækkun á sjávarafurðum auk þess sem olía lækkaði varð til þess að stjórnvöld ásamt aðilum vinnumarkaðarins sáu færi á að draga verulega úr verðbólgu. Þessar þríhliða viðræður leiddu til þess að kjarasamningar eru undirritaðir 27. febrúar, þar gefur ríkisstjórnin fyrirheit um að halda genginu stöðugu, lækka tekjuskatta og sveitarfélög fengin til þess að lækka útsvar og ríkið lækkaði umtalsvert aðflutningsgjöld á bifreiðum.
Verkalýðshreyfingin samdi um hófsamar launahækkanir með tilliti til verðbólgustigsins, eða 14% almenna launahækkun og tryggja átti kaupmátt með skipan sameiginlegrar launanefndar. Hluti samningsins eru umfangsmiklar aðgerðir til þess að draga mjög úr verðbólgu í landinu, og stefnt að því að hún verði á bilinu 7-8% í árslok, sem yrði ef það tækist gríðarlegur árangur. Verðbólgan hafði ekki verið undir 10% síðastliðin fimmtán ár og oftast verið mæld í allmörgum tugum prósenta. Í samningnum er einnig gert ráð fyrir nýrri leið til að fjármagna húsnæðislánakerfið með þátttöku lífeyrissjóðanna og samkomulag varð um endurskipulagningu lífeyriskerfisins, sem m.a. felur í sér að árið 1990 verður greitt í lífeyrissjóðina af öllum launum.
Þessi kjarasamningur náði yfir allan vinnumarkaðinn, þar með talda opinbera starfsmenn, og gilti út árið 1986. Umsamin almenn launahækkun var 10%, en lægstu taxtar voru hækkaðir aukalega með því að inn í þá voru felld áður umsaminn álög. Samningurinn var nefndur „Þjóðarsátt“, en var síðar nefndur „Þjóðarsáttin hin fyrri“. Þær aðgerðir sem gripið var til með samningsgerðinni leiddu fyrst í stað til verðhjöðnunar, en skattalækkunin varð til þess að halli varð á ríkissjóði. Verðbólga minnkaði um skamma hríð, en þensla á vinnumarkaði og launaskrið leiddu til þess að hún jókst aftur. Verðbólgan fór niður í 13% árið 1986, en verðlagshækkanir urðu meiri en gert hafði verið ráð fyrir þegar leið á árið. Nýr samningur er gerður 6. desember 1986 á sömu forsendum og febrúarsamningurinn. Mikilvægasti þáttur þessa samnings var að taxtakerfin voru lagfærð og færð að raunlaunum, sem varð til þess að lægstu laun hækkuðu töluvert, en almenn launahækkun var um 5%, gildistími samningsins var út árið 1987.
Í útreikningum hagfræðinga aðila vinnumarkaðsins lá fyrir að ef ná ætti þeim aukna kaupmætti sem yfirboðsmenn töldu að launamenn ættu inni, hefði þurft að sækja um liðlega 40% kauphækkun sem hefði síðan framkallað a.m.k. 35% verðbólgu. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambandsins, sagði : „En þótt þessi leið sé ekki með öllu áhættulaus hefði það verið heljarstökk inn í náttmyrkrið að fara gömlu verðbólguleiðina. Því ekkert fer verr með þá lægst launuðu en verðbólgan.“ Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, sagði að forsendur samningsins væru tvær: umfangsmikil niðurfærsla verðlags og mjög stíft aðhald í gengismálum. Það er grundvallarmál að félagar í verkalýðshreyfingunni beiti sér alls staðar í verðlagseftirliti, geri verðsamanburð og gæti þess, að verðlækkanirnar skili sér. – Það er augljóst, að með þessum samningum væri verið að taka áhættu. Það er ekki hægt að fullyrða að allt gangi eftir. Samningar eru alltaf happadrætti og hingað til hefur launafólk mikið haft á tilfinningunni, að vinningnum hafi ávalt verið stolið.“
Á vordögum 1987 standa opinberir starfsmenn fyrir umfangsmiklum verkfallsaðgerðum og uppsögnum og ná fram kjarasamning þar sem laun opinberra starfsmanna eru hækkuð að liðlega 20%, en lægstu taxtar eru hækkaðir um allt að 35%, eða helmingi meira en félagsmenn ASÍ höfðu fengið. Mörgum þótti þetta bera svipað yfirbragð og það sem gerst hafði haustið 1984. En eins áður hefur verið nefnt voru í gangi miklar framkvæmdir á þessum tíma og mikil eftirspurn eftir vinnuafli, þannig að það var mikið launaskrið.
Launamenn kepptust árið 1987 við að afla sér eins mikilla tekna og frekast var kostur, því skipta átti yfir í staðgreiðslu skatta 1. janúar 1988. Fyrir lá að landsmenn þyrftu ekki að greiða tekjuskatt fyrir árið 1987. Verðbólgan hækkaði í 25% og 1. október eru laun hækkuð um 7% í stað umsaminna 1,5% vegna ákvæða um tengingu launa við verðlagsþróun. Samningaviðræður hófust í árslok um endurnýjun samninganna, fljótlega varð ljóst að ekki yrði um samskonar samflot að ræða aftur. Verkamannasambandið gerði kröfur um allt að þriðjungshækkun launa og taldi sig verða að sækja þá hækkun.
Í lok janúar 1988 eru gerðir kjarasamningar á Vestfjörðum með 13% launahækkun, þessari niðurstöðu fylgdi síðan röð kjarasamninga annarra verkalýðsfélaga um land allt. Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar setti bráðabirgðalög 20. maí 1988 þar sem komið var á verðstöðvun en launahækkunum og hækkun á búvöruverði var frestað. Kjarasamningar voru framlengdir til eins árs með lögunum og samningsréttur afnuminn, verðbætur á laun bönnuð og sama átti við um verkföll. Þessu var mótmælt kröftuglega af hálfu verkalýðshreyfingarinnar ríkisstjórnin væri að brjóta stjórnarskrá og alþjóðasamþykktum. Ríkisstjórn Þorsetins féll og ný ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við í september 1988. Hún stytti gildistíma laganna og afnám bann við verkföllum og verkbönnum.
Allir kjarasamningar voru lausir um miðjan febrúar 1989. Á fundi miðstjórnar RSÍ 27. janúar 1989 er farið ítarlega yfir hugmyndir um samflot verkalýðsfélaganna í komandi samningsgerð og vinnubrögð og skipan starfsnefnda. Efnahagslegar árherslur eru kynntar og rætt um skammtímasamning með um 10% launahækkun. Fram kom að vissa væri fyrir efnahagslegum aðgerðum ríkisstjórnarinnar, en ekki væri búið að kynna þær, en talið næsta víst að gengið verði fellt enn eina ferðina. Í mars hófust viðræður milli ASÍ og VSÍ, þar höfnuðu vinnuveitendur kröfum verkalýðshreyfingarinnar um kaupmáttartryggingu og bentu á að svigrúm fyrirtækjanna væri nánast ekkert og auk þess væri mikil óvissa í efnahagsmálum þannig að allt benti til þess að gerðir yrðu skammtímasamningar fram eftir árinu. Vígstaða verkalýðsfélaganna var ekki sterk þar sem atvinnuleysi var vaxandi.
Þrátt fyrir þessa stöðu gerir Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra kjarasamning við BSRB í apríl með 10% launahækkun. „Sókn til jafnréttis og bættra lífskjara“ sagði Ögmundur Jónasson formaður BSRB í blaðaviðtali þegar samningarnir voru kynntir. Samningsgerðin var gagnrýnd en fjármálaráðherra svaraði með því að fullyrða að það væri svigrúm hjá ríkissjóði til þessara samninga. Þjóðhagsstofnun brást við með því að birta útreikninga sem sýndu að vegna samningsins stefndu útgjöld ríkissjóðs hálfum milljarði fram úr tekjum og ef gerðir yrði samskonar samningar á almennum markaðinum myndi það valda um 14% gengisfellingu. Forysta ASÍ krafðist vitanlega að fá samskonar launahækkun og opinberu starfsmennirnir höfðu fengið, sem varð til þess að ASÍ félögin undirrituðu nýjan kjarasamning 1. maí sem átti að gilda til áramóta.
Enn eina ferðina fór hringekjan af stað með umfangsmiklum hækkunum á verðlagi. Verkalýðshreyfingin hélt útifund 1. júní 1989 til þess að mótmæla þessu, reiði almennings var mikil og á fundinn mættu um 20 þús. manns. Ríkisstjórnin lét undan með því að lækka verð á ýmsum mikilvægum dagvörum heimilanna. Það dugði ekki til og afleiðingarnar létu ekki á sér standa, gengi krónunnar var fellt nokkrum sinnum á árinu. Í árslok var gengisfellingin orðin samtals um 24% yfir árið.
Útlitið í efnahagsmálum var æði dökkt í árslok 1989. Verðbólgan tekin að hækka á nýjan leik og var kominn í 25% um áramótin 1989 – 1990. Gengið hafði verið fellt um allt að 30% á árinu 1989, kaupmáttur rýrnaði, atvinnuleysi fór vaxandi og gjaldþrotum fjölgaði. Enn fleiri sannfærðust um að ekki yrði undan því vikist að allir aðilar tækju höndum saman og tækju á þessum vanda að öðrum kosti myndu efnahagskerfið sigla hraðbyri inn á sömu kollsteypubrautina og það gerði fyrri hluta áratugarins.
Viðræður vegna endurnýjunar kjarasamninga hófust í nóvember 1989. Margir mættu til leiks ákveðnir í því að taka upp önnur vinnubrögð og reyna til þrautar þá leið sem hafði verið reynd árið 1986. Menn voru sannfærðir um að framtíðarlausnin væri að draga verulega úr verðbólgunni til þess að tryggja stöðugleika og um leið kaupmátt launa. Það myndi treysta undirstöður atvinnulífsins og atvinnu. Nýir kjarasamningar eru undirritaðir 1. febrúar 1990 og hlutu þeir nafnið Þjóðarsáttarsamningar. Gildistími hans var til 15. september 1991 og fól í sér fimm launahækkanir samtals um 5% árið 1990 og 4,5% árið 1991. Sérstakar launabætur voru greiddar á lægstu laun. Þjóðhagstofnun spáði 6-7% verðbólgu, sem hljómaði eins óraunsæ óskhyggja í hugum margra eftir að hafa búið við fleiri tuga prósentutölur jafnvel á annað hundraðið undangegnginna áratuga.
Í spá sem var lögð til grundvallar við gerð samningsins reiknað með um 1% kaupmáttarskerðingu á árinu 1990, en aftur á móti hækkun kaupmáttar árið 1991. Sett var á laggirnar sérstök launanefnd sem fylgjast skyldi með verðbólguþróuninni. Samtök bænda komu að samningsgerðinni og var það nýlunda, ákvæði voru í samningnum um að búvöruverð myndi haldast óbreytt til 1. desember 1990. Ákvæði voru um takmörkun á hækkun opinberrar þjónustu ásamt því að dregið yrði úr fyrirhuguðum sköttum og gjöldum opinberra fyrirtækja, sem nam um 0,3% lækkun framfærsluvísitölu. Samið var um að þróun framfærsluvísitölu mætti ekki verða til þess að raska markmiðum samningsins.
Skiptar skoðanir voru meðal helstu hagfræðinga landsins þegar þeir voru beðnir um að spá um hvert stefndi. Þeir bjartsýnustu spáðu um 5-8% verðbólgu. Þorvaldur Gylfason ásamt Þresti Ólafssyni og Vilhjálmi Egilssyni spáðu að hún yrði um 20%. Ríkisstjórnin fylgdi fastgengisstefnu eins og gert hafði verið ráð fyrir. Lækkun vaxta gekk eftir þeir voru í ársbyrjun 1990 32%, en voru komnir niður í 14% í apríl. Launanefndin reiknaði út, samkvæmt ákvæðum samningsins, breytingar á vísitölunni og komst að þeirri niðurstöðu að hækka ætti laun 0,83% umfram umsamda launahækkun í nóvember. Í mars er sú tala 0,3% aukahækkun og um sumarið er talan 0,57%, en samkomulag verður um að greiða 6,300 kr. launahækkun 1. júlí 1991 til allra, þar var verið að senda aukahækkun til þeirra lægst launuðu.
Það urðu nokkrum sinnum harkaleg átök á fyrstu árum Þjóðarsáttar milli forsvarsmanna raunsæishópsins og annarra innan verkalýðshreyfingarinnar þá einna helst við nokkrar af forystumönnum opinberra starfsmanna. Sama átti við um stjórnvöld sérstaklega sveitarstjórnir vegna þjónustugjalda og bankana vegna vaxta. Baráttan um gerð þjóðarsáttarinnar stóð þannig yfir í um 4. Stjórnarskipti urðu vorið 1991, Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur mynduðu ríkisstjórn og ráðuneyti Davíðs Oddssonar tók við völdunum. Fyrstu árin eftir Þjóðarsátt ríkti nánast stöðnun í íslensku efnahagslífi. Hagvöxtur var lítill sem enginn á árunum 1990-1995, eða um 0,4% á ári. Á þessum árum lækkaði verðbólgan til muna eða niður í tæp 1,4%. Næstu árin á eftir hélst hún á bilinu 1,5-2% en er leið nær aldamótum tók þrýstingur á verðlag að vaxa á ný og verðbólga óx í 3,4% árið 1999, 5,1% árið 2000 og 6,6% árið 2001. Netbólan nær sér á flug þegar líður á síðasta áratug aldarinnar, sem olli umtalsverðu launaskriði.
Í þessu sambandi er ástæða að halda því til haga að lágmarkslaun rafiðnaðarsveins höfðu hækkað 2.500% áratuginn frá 1970-1980. Þessi laun hækkuðu síðan um 2.700% áratuginn 1980-90. Síðasta áratug aldarinnar hækkuðu þessi laun um 12% og fyrsta áratug nýrrar aldar hækkuðu þau um 30%. Það var afleiðing þess að fastgengisstefnan er aflögð í byrjun aldarinnar og gengið margsinnis fellt og flestum ljóst hvernig það endaði allt saman.
Stjórnvöld höfðu ávalt valið þá leið ,,leysa atvinnuleysisvandann“ með því að fella gengi gjaldmiðilsins, en þau féllu ekki í þá freistni eftir árið 1991 enda hefði gengislækkun ekki nægt til þess að tryggja fulla atvinnu þegar vextir ákvarðast á markaði. Það var í reynd lykilatriði að þjóðarsáttin hélt lífi var ládeyðan í atvinnulífinu á fyrri hluta tíunda áratugarins. Fjárfestingar voru óvenju litlar á þessum árum. Framkvæmdir við stórvirkjanir, sem verið höfðu í gangi frá sjöunda áratugnum, lögðust niður um skeið eftir að lokið var við Blönduvirkjun haustið 1991.
Verðbólga fór því hjaðnandi á fyrstu árum þjóðarsáttarinnar, hún var 7–8% árin 1990 og 1991, en fór niður á svipað stig og í grannlöndunum, eða jafnvel undir það, árin á eftir. Jafnframt jókst atvinnuleysi og náði hámarki árin 1994 og 1995. Þar skipti mestu að ekki var þrýstingur á verðlag vegna þenslu á vinnumarkaði. Hóflegt atvinnuleysi fram á miðjan tíunda áratuginn er meginskýringin á því að þetta tókst og er í samræmi við kenningar breska hagfræðingsins Keynes, sem hann setti fram fyrir síðari heimsstyrjöld.
Ólafur Ragnar geirneglir Þjóðarsáttina
Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna tók ekki þátt í Þjóðarsáttinni, þeir voru með samning sem kvað á um 4,5% launahækkun. Ríkisstjórnin taldi sig verða að koma í veg fyrir þessa hækkun og ógilda með lögum kjarasamninga sem fjármálaráðherrann, Ólafur Ragnar Grímsson, hafði sjálfur samþykkt skömmu áður og þóttu fela í sér verðbólgutímasprengju.
Afturvirkni þeirra laga var síðar dæmd sem stjórnarskrárbrot í Félagsdómi. ASÍ gerði þá kröfu um að fá sömu hækkun og stóðu allir á nálum um hvort Þjóðarsáttin væri að springa í andlit manna. Ríkisstjórnin setti þá bráðabirgðalög og feldi launahækkun BHMR niður. Það er því óhætt að fullyrða að þetta framlag Ólafs Ragnars hafi haft mikil áhrif á að þjóðarsáttin hélt velli því samstaðan innan verkalýðshreyfingarinnar varð massíf með þessum arfavitlausa kjarasamnings hans.
Hörð orðaskipti fóru fram á milli forystu BHMR og ASÍ þar sem BHMR spurðist fyrir um hvort ASÍ væri búið að taka samningsréttinn af þeim. Í svari Ásmundar Stefánssonar kemur m.a. að svo væri vitanlega ekki, en framhjá því yrði ekki litið að þjóðarsáttin kæmi til góða fyrir alla. Allir nytu stöðugleikans, fasts gengis, óbreytts búvöruverðs, lækkun vaxta og kauptryggingarákvæðanna. Það ástand hefði verið skapað með fórnum stóra hópsins, og það væri ósanngjarnt ef einhverjir ætluðu að njóta ávinningsins en ekkert að leggja til málanna sjálfir.
Mikil hiti var í BHMR fólkinu og reistu þau níðstöng og lásu með henni bölbæn. Einnig voru mikil átök innan ríkisstjórnarinnar og þótti sumum ráðherranna hart að sér vegið. En stefnan hafði verið mörkuð og samstaða um að henni yrði að fylgja, annars færi allt á sama veg aftur. Menn voru búnir að læra það að ef eitt stéttarfélag færi úr samstöðunni og keyrði í gegn launahækkanir umfram aðra, eða hið opinbera ætlaði að hækka skatta eða þjónustugjöld umfram umsamið svigrúm, þá færi hringekjan umsvifalaust í gang aftur. Hástemmdar yfirlýsingar um mikla hækkun launa væru ekki inn í myndinni þessa dagana.
Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra var þarna í sinni síðustu ríkisstjórn, átti vissulega heiður skilinn fyrir að aftengja verðbólgutímasprengju fjármálaráðherrans, þegar honum varð ljóst hvað til hans friðar heyrði. Þetta mynstur breytist eftir Þjóðarsáttina 1990 og margir vonuðu að þar kæmi fram nýtt þroskamerki á íslensku samfélagi, að almennt samkomulag yrði um að beita ekki kjarasamningum í pólitískum tilgangi fyrir einstaka frambjóðendur eða stjórnmálaflokka. Til þess væru of miklir grundvallarhagsmunir í húfi.
- Skuggahliðar menningarinnar. - 26/04/2016
- Nei takk ómögulega. Það er nóg komið - 07/04/2016
- Þetta er ógeðslegt þjóðfélag - 04/04/2016