trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 27/01/2015

Viðvarandi fylgistap Framsóknar. Stjórnarmeirihlutinn löngu fallinn. Aðeins Samfylkingin styrkir sig

Bjarni og SigmundurAllt frá alþingiskosningum hefur fylgi Framsóknarflokksins farið hægt og bítandi niður á við. Það er nú innan við helmingur af kjörfylginu.

Í kosningunum vorið 2013 fékk Framsóknarflokkurinn um 24 prósent atkvæða. Eins og sést af meðfylgjandi myndum frá Capacent Gallup var fylgið komið niður í 14 prósent þegar um haustið 2013 og hefur farið enn lækkandi síðan. Það mælist nú 11-12 prósent.

Fylgi flokksins jókst ekki þrátt fyrir kynningu og framkvæmd á „leiðréttingunni“ sem flokkurinn segir vera uppfyllingu á stærsta kosningaloforði hans. Fylgið jókst heldur ekki á landsvísu þegar flokkurinn tók stóran fylgiskipp fyrir borgarstjórnarkosningar vorið 2014.

Hinn ríkisstjórnarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur hins vegar haldið kjörfylgi sínu, 27 prósentustigum. Allt kjörtímabilið hefur flokkurinn mælst með fylgi á bilinu 24-28 prósent. Þetta er að vísu lítið fylgi sé litið til sögunnar enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn haft fylgi á bilinu 35-40 prósent nánast allt frá stofnun.

Undantekningin er alþingiskosningar 1987, þegar flokkurinn klofnaði og Albert Guðmundsson stofnaði Borgaraflokkinn, og Sjálfstæðisflokkurinn fékk um 27 prósent.

Þessar tölur virðast hins vegar sýna að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki í neinu notið fylgistaps Framsóknarflokksins, né heldur hafi erfið mál – svo sem mál Hönnu Birnu Kristjánsdóttur – orðið til þess að minnka fylgi hans.

Eini flokkurinn sem hefur aukið fylgi sitt svo nokkru nemi er Samfylkingin, en hún beið raunar sögulegt afhroð í síðustu kosningum, fékk ekki nema um 13 prósent atkvæða. Flokkurinn hefur styrkt stöðu sína allt kjörtímabilið, lengst af mælst með 15-17 prósent, en 19-20 prósent síðustu mánuði.

Fylgi annarra flokka hefur breyst minna frá kosningum. Björt framtíð fékk um 12 prósent í kosningum, hefur mælst 15-16 prósent, en að undanförnu með 13-14 prósent. Sömu sögu er að segja af Vinstri grænum, sem fengu 11 prósent og mælast nú með 13, þótt einstaka mælingar hafi sýnt hærri tölu.

Píratar fengu 8 prósent í kosningum, hafa mælst allt upp í 13 prósent, en eru allajafna á bilinu 8-9 prósent.

Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna hefur verið í kringum 40 prósent allt kjörtímabilið. Hæst mældist það 44 prósent skömmu eftir kosningar, en er nú 38 prósent.

Í þessu yfirliti er miðað við tölur úr skoðanakönnunum Capacent, en aðrar kannanir sýna sömu tilhneigingar. (Smellið á myndirnar til að stækka þær.)

Capacent 1Capacent 2

Flokkun : Efst á baugi
1,305