Úr kýrhausnum
Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Og ekki bara þar. Líka í Framsókn.
Formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra sagði í sjónvarpsviðtali 3.11.:
„Menn eru fyrst komnir í vanda, stjórnmálamenn, ef þeir ætla að láta skoðanakannanir ráða gerðum sínum.“
Tveimur dögum síða, 5.11. lögðu allir óbreyttir þingmenn Framsóknarflokksins til að alþingi tæki af Reykjavíkurborg réttinn til þess að skipaleggja flugvallarsvæðið. Fyrir hópnum fór og fer Höskuldur Þórhallsson. Hann sagði að með þessu væri flokkurinn að höggva á áratuga gamlan „deiluhnút.“
Fallegt orð. Deiluhnútur.
Og svo sagði hann þetta, Höskuldur, 5. & 6. 11.:
„Það hafa komið fram skýrar vísbendingar í skoðanakönnunum“ um að það sé þjóðarvilji að flugvöllurinn verði áfram þar sem hann er.
Það mætti því ætla að hann væri aldeilis kominn í vanda, stjórnmálamaðurinn Höskuldur, að mati formanns síns. Og kannski þeir báðir, frammararnir, því að í stefnu flokksins ku vera skýrt kveðið á um það að skipulagsvald skuli vera í höndum sveitarfélaga.
En kannski er það frumhlaup að halda að þeir séu í vanda, þingmennirnir. Það bendir nefnilega margt til þess að það, að stunda hugfimi af þessari tegund, sé nákvæmlega það sem kallað er að vera sannur Framsóknarmaður. Þá er þetta ekkert skrýtið. Ekki einu sinni í kýrhausnum.