Rýrnun
Ég segi það satt; margoft hef ég reynt að láta mér líka við orð forsætisráðherrans. En mér hefur ekki tekist það. Í gær, 22.07.´15, stóð hann framan við myndavélar ríkissjónvarpsins og fór að tala um fyrirhugaða nýbyggingu Landsbankans í Hafnarstræti/Tryggvagötu. Ég var spenntur; ég ætlaði að láta mér líka við manninn.
Ráðherrann byrjaði á því að tala um skipulagsmál og allt of mikið „byggingarmagn“ á milli Hörpu og gamla bæjarins. (Þá vissi ég að bankastjórnin hafði ákveðið að minnka bygginguna – ef til kæmi að hún yrði reist – um 1/3 frá því sem upphaflega hafði verið ætlað. Ráðherrann hlaut að vita það líka.)
Næst gagnrýndi hann forgangsröðun ríkisbankans sem hann telur að ætti að vera leiðandi í því að bæta kjör viðskiptavina bankakerfisins. (Þar er ég sammála ráðherranum þó að ég skilji ekki þetta með forgangsröðunina þegar á allt er litið.)
Í þriðja lagi fannst ráðherranum það undarlegt „ef banki sem er í almannaeigu, ætlar að fara gegn því sem „virðist vera augljós vilji eigendanna – almennings og fulltrúa hans.“ (Þá fór ég að hugsa um gjaldfrýjan aðgang sumra að auðlindum landsins, virkjanaoffors, flutning stofnana og fleira sem er í gangi gegn „vilji eigendanna – almennings“ og fannst eins og maðurinn væri að kasta grjóti úr glerhúsi.)
Þá nefndi ráðherrann fjölmarga aðra staði sem Landsbankinn gæti nýtt undir höfuðstöðvar; jafnvel annað húsnæði sem þegar er til staðar. „Menn hafa til að mynda nefnt tollhúsið sem ég held að gæti nýst bankanum mjög vel.“ (Ég af öllum mönnum vissi að Landsbankinn hafði spurst fyrir um tollhúsið en fengið þau svör að ríkið ætlaði að nota það fyrir sjálft sig. Þetta hefði ráðherrann mátt vita. Og kannski vissi hann það.)
Lóðin sem fyrirhugað er að reisa nýjan Landsbanka á er í eigu bankans. Þetta er eitt eftirsóttasta byggingarsvæði höfuðborgarinnar. Ef bankinn byggir ekki á henni mun vinnandi fólki fækka í miðbænum því að þar mun rísa hótel með miklu meira „byggingamagn“ gegn „vilja almennings.“
Þeir sem þekkja til bankareksturs segja að Landsbankinn þurfi nýtt húsnæði. Hann muni spara 700 miljónir á ári með því að byggja yfir sig. Þá eru sjálfsagt ekki búið að meta til fjár þær eignir sem hann gæti selt upp í byggingarkostnað.
Mér tókst ekki ætlunarverk mitt. Ráðherrann óx ekki. Hann rýrnaði. Hann talaði af oflæti og annað hvort af vanþekkingu eða gegn betri vitund. Að þessu sögðu er rétt að geta þess í lokinn, sem ráðherrann veit og vissi á meðan hann talaði í sjónvarpið, að bankinn er ekki búinn að taka ákvörðun um að byggja yfir sig hvað þá heldur hvenær það verður.
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020