Fátækasti hreppur í Evrópu varð sá ríkasti í gegnum menntun og opið samfélag. Lærdómar fyrir Ísland
Menntun og opið samfélag í virku alþjóðlegu samstarfi er lykillinn að endurreisn Íslands. Þetta er í grófum dráttum niðurstaða Jóns Baldvins Hannibalssonar í grein sem hann birtir í Herðubreið.
Í greininni teiknar Jón upp mynd af fjármálakerfi sem komið er úr böndunum og lýðræðinu stafar hætta af. Eitt svarið við því – ekki síst fyrir smáþjóðir – er að efla háskólamenntun og auka vægi akademíunnar í pólitískri umræðu. Menntunin er líka forsenda velmegunar og þar með velferðar.
Jón Baldvin rifjar upp samtal við Gaston Thorn, fyrrverandi forsætisráðherra Lúxemborgar:
„FYRST, sagði hann, tókst okkur að koma í veg fyrir, að innhverfum þjóðernissinnum tækist að gera mállýskublendinginn, sem við höfum til daglegs brúks, að lögvernduðu ríkismáli, jafnframt því sem kennsla á öðrum tungumálum væri bönnuð.
ANNAÐ – og hér breytti hr. Thorn frásögn sinni í fyrstu persónu eintölu: Mér tókst að koma í veg fyrir, að þessi stjórnmálaöfl næðu því fram að stofna þjóðarháskóla, þar sem skylt væri, lögum samkvæmt, að kenna á hinu lögverndaða tungumáli. Í staðinn lagði ég til, að við stofnuðum „lána- og styrktarsjóð námsmanna“, sem gerði bestu námsmönnum okkar, sem stæðust inntökuskilyrði, kleift að stunda nám erlendis. Þetta varð niðurstaðan. Góðir námsmenn frá Luxemborg gátu fengið skólavist og stundað nám við bestu háskóla í Þýskalandi, Frakklandi, Sviss, Ítalíu, Belgíu, Niðurlöndum – og þegar frá leið í Bandaríkjunum. Auðvitað þótti hr. Thorn það ekki verra, að í flestum tilvikum var þetta háskólanám ungs fólks frá Luxemborg niðurgreitt af skattgreiðendum grannþjóða, af því í fæstum tilvikum voru innheimt skólagjöld.
ÞRIÐJA atriðið, sem hann nefndi í gamansömum tón, var þetta: Hann vísaði með handahreyfingu á þessi glæsilegu húsakynni, sem við vorum stödd í. Þetta er okkar Þjóðleikhús, sagði hann. En mér tókst líka að koma í veg fyrir, að æviráðnir leikarar af heimaslóð legðu stofnunina undir sig. Þetta hús stendur því opið leik-, óperu- og tónlistarhópum alls staðar að úr veröldinni, sem bjóða hér upp á list í heimsklassa.“
Grein Jóns er hér.
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021