trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 13/02/2018

Þegar vonin ein er eftir

Við sem ætlumst til þess að pólitík sé stunduð af heilindum komumst oft í hann krappan þegar við erum að verja gerðir stjórnmálamanna sem oft eiga ekki upp á pallborðið hjá almenningi. Í hvert sinn sem fréttir af launamálum þeirra skolar óvart upp á yfirborðið glymja úr hverju skoti gömlu orðhenglarnir: Þeir skara bara eld að eigin köku! Það er sama rassgatið undir þeim öllum! Við sem vitum að þetta er ekki endilega svona eigum í vök að verjast. Og ekki nema eðlilegt þegar skyndilega lítur allt úr fyrir að vera nákvæmlega eins og slagorðin segja.

Eftir að Kjararáð skenkti þingmönnum laun síðast fór reiðialda um samfélagið; mönnum þótti kaupið of hátt. Það var skiljanleg reiði. En það reiddust ekki allir. Til voru þeir sem sögðu fullum fetum að þingmenn yrðu að hafa há laun og nefndu meðal annars máli sínu til stuðnings að það væri dýrt að vera á ferð og flugi um landið þvert og endilangt til þess að hitta kjósendur, skýra sín mál og hlusta eftir áliti annarra. Og fleira var nefnt til stuðnings háum launum. Og flest réttmætt. Svo koðnaði umræðan niður eins og títt er.

En aftur blossaði hún upp. Og nú brennur vegna þess að þingmenn hafa hærri laun en upp var gefið í umræðunni um launahækkunina frá Kjararáði. Þeir fá sporslur. Af magri sort, sumar heita álagsgreiðslur, aðrar starfskostnaður, ferðakostnaður, húsnæðis- og dvalarstyrkir og afsláttur af flugi og leigubílum. Atarna er greitt úr ríkissjóði. Upphæðirnar hlaupa á miljónum á ári ef bifreiðastyrkur eins manns getur gefið 460 þúsund krónur á mánuði. Og einhverjar greiðslurnar ekki taldar fram til skatts. Og enn eru ekki nefndar stórar fúlgur sem menn fá fyrir að vera formenn flokka og þigflokka, formenn og varaformenn nefnda þingsins og eitthvað fleira dulið.

Og nú erum við í vanda, þeir sem viljum veg alþingis sem mestan, við sem viljum halda virðingarverða stjórnmálamenn á góðum launum, því það er eiginlega engin vörn til við öllum þessum aukasporslum. Engin. Alls engin. Og þá blasir allt í einu við “sama rassgatið undir þeim öllum” þar sem þeir sitja í þögn og pukrast, rækta með sér sameiginlega leyndarhyggju um það sem að þeim snýr, halda samhentir um skörunginn við baksturinn á sínum eigin kökum.

Þetta er ömurlegt og mig langar til þess að bölva á prenti. En geri það ekki vegna þess að ég kýs að taka mark á voninni sem fyrirvaralaust steig fram fyrir blótsyrðin. Voninni um að þingmenn taki sig til, fyrr en seinna, afnemi allar fríðindagreiðslur, hverju nafni sem nefnast, haldi háa kaupinu sem þeir fengu síðast frá Kjararáði og hækki það síðan um jafn mörg prósent og félagsmenn Eflingar fá í næstu kjarasamningum. Þannig gætu þeir öðlast virðingu almennings og orðið verðugir hárra launa. Með þessu lagi væri von.

Og ég ætla að leyfa mér að trúa því að það sé von.

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,448