trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 15/12/2017

Pabbi borgar: Dagar í lífi fjárhættuspilara

Þegar Bjarni hafði selt hlutabréfin sín í Glitni smám saman eftir Vafningsmálið snemma árs 2008 þurfti hann að koma þeim fjármunum einhvern veginn í vinnu, eins og það heitir víst á fagmáli.

Á mörkuðum voru veður válynd og varkárir fjárfestar hefðu hugsanlega látið sér nægja ríkisskuldabréf með traustri ávöxtun. Ekki Bjarni Benediktsson. Hann fór að veðja.

Kannske byrjuðu veðmálin fyrr. Við vitum það ekki.

Við vitum þó, að vorið 2008 gerði Bjarni svokallaðan afleiðusamning við Glitni um verð á hlutafé í annars vegar bandaríska fjárfestingabankanum Morgan Stanley og hins vegar Danske Bank.

Slíkir afleiðusamningar – eða framvirkir hlutabréfasamningar – eru í eðli sínu veðmál. Í þessu tilviki fékk fjárfestirinn Bjarni eignarhald á hlutabréfunum í skamman tíma án þess að borga nokkuð fyrir.

Samningurinn gekk út á að uppgjör færi fram á gengi hlutabréfanna á þeim degi í framtíðinni, sem samningurinn kvað á um. Ef gengið hefði hækkað, þá myndi Bjarni græða. Ef það hefði lækkað, þá tapaði hann og mótaðilinn (Glitnir) græddi.

Bjarni veðjaði semsagt á að hlutabréf í Morgan Stanley og Danske Bank myndu hækka til skamms tíma litið.

Núnú. Bjarni veðjaði vitlaust og tapaði. Mörgum milljónum á örskömmum tíma bara vegna þessara tveggja banka.

Á svipuðum tíma gerði Bjarni sams konar veðmálasamninga um verð á hlutabréfum í bandaríska fjárfestingabankanum Lehman Brothers.

Og áfram hélt Bjarni að tapa.

Nú voru tveir kostir í stöðunni fyrir Bjarna. Að borga Glitni mismuninn, sem tapinu nam, eða framlengja og veðja áfram. Bjarni veðjaði áfram og meira.

Þessu hélt hann áfram alveg fram í miðjan september.

Þegar spilinu lauk og bankinn vildi fá peningana sína hafði Bjarni tapað um 30 milljónum. Það var talsvert fyrir alþingismann sem á þessum tíma var með kannske 700 þúsund í laun á mánuði að öllu meðtöldu.

Við vitum ekki hvort Bjarni átti 30 milljónir til að gera upp við bankann, en það kemur ekki að sök.

Pabbi borgaði.

Gögn Glitnis sýna ótvírætt að Benedikt Sveinsson greiddi spilaskuld sonar síns við bankann. […]

Hinu er líka ósvarað, hvernig Bjarni Benediktsson stóð skil á þessum fjármunafærslum gagnvart skattayfirvöldum – eða hvort hann stóð yfirleitt á þeim skil. Skuldayfirtaka og/eða uppgreiðsla annarra á skuldum einstaklings með þessum hætti telst til gjafagjörninga – nema verðmæti komi á móti – og um þá gilda mjög ákveðnar reglur samkvæmt skattalögum.

Það er aðeins ein af fjölmörgum spurningum sem Bjarni Benediktsson á eftir að svara um margvísleg fjármálaumsvif sín bæði fyrir og eftir Hrun.

——

Brot úr bókinni Hinir ósnertanlegu – saga um auð, völd og spillingu eftir Karl Th. Birgisson, sem Herðubreið gefur út. Bókin fæst í bókaverslunum og Hagkaupum á höfuðborgarsvæðinu, en einnig á forlagsverði með pöntun í netfangið herdubreid@herdubreid.is.

1,434