Konan með silfruðu röddina: Ragnheiður Ásta Pétursdóttir
Örn Úlfar Sævarsson skrifar
Dánarfregn Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur hreyfði við mér og vakti upp gamlar minningar enda lásum við einu sinni dánarfregnir saman.
Þannig var að árið 1996 barst mér til eyrna að það vantaði þul til afleysinga á Rás 1. Starfið hljómaði eins og þægileg innivinna með háskólanámi og herti ég því upp hugann og hringdi upp í Efstaleiti. Þar náði ég sambandi við Markús Örn og tjáði honum með minni mýkstu rödd að mögulega væri ég rétti maðurinn í starfið. Honum leist ekki illa á það sem hann heyrði í símanum og taldi ég þar björninn unninn. Annað átti eftir að koma á daginn.
Fyrsta skrefið var að mæta í prufu. Ég var settur inn í hljóðver með heyrnartól og afhent blað með löngum sérkennilegum texta sem innihélt fjölda nafna á borð við Dieterich Buxtehude, Camille Saint-Saëns og Richard Wagner. Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds en róaðist ögn við að sjá nafn franska rithöfundarins André Gide þarna á meðal því ég hafði nýlega heyrt Torfa Tulinius bera það fram: „Sjíd“. Þetta las ég inn á segulband og þóttist góður.
Þá var næsta skref að hitta Ragnheiði Ástu. Ég þekkti auðvitað silfraða röddina en það var stór stund að setjast og spjalla við sjálfa konuna með litríku gleraugun. Ég fann strax að henni leist ekkert allt of vel á fyrirhugaðan afleysingaþul jafnvel þótt ég hefði ekki fallið í þá gryfju að lesa Wagner blessaðan sem Ameríkana eins og allt of mörg gerðu þáorðið. Samtalinu lauk þó á ágætum nótum og féllst hún á að ég fengi að sitja nokkrar vaktir með henni, Sigvalda, Gerði og Stefaníu. Ég lofaði að leggja hart að mér við æfingar enda voru erfiðustu tíðindin á fundinum þau að þótt ég væri langt kominn með nám í íslensku þá væri ég algjörlega ólæs og kynni ekki á klukku. Við tók alllangt reynslutímabil þar sem ég fékk að sitja í hljóðstofu með þessu yndislega fólki og grípa í hljóðnemann við og segja „klukkan er 20 mínútur gengin í…“, „Tilkynning frá Hafrannsóknarstofnun. Skyndilokanir…“ Gekk mér einna best að herma eftir hinni dalvísku syngjandi Sigvalda Júlíussonar sem hljómar kannski best í orðunum „Útvarp Reykjavík. Nú verður útvarpað veðurfregnum fráááá Veðurstofu Íslands.“
Smám saman lengdust reynsluvaktirnar og fékk ég góða punkta frá hinum þulunum jafnt sem tæknimönnum en Ragnheiður Ásta var alltaf gagnrýnust og lét mig heyra það í hvert skipti sem hún taldi ábóta vant – en ávallt með glettni í auga. Þulurinn átti að tala rétt og skýrt án allra vandræðalegra þagna eða vangaveltna upp úr sjálfum sér. Ég var jafnvel sendur heim með spólur (þetta var jú árið 1996) svo ég gæti hlustað á minn eigin fréttalestur til að heyra hvar ég gæti gert betur. Þessi smámunasemi angraði mig aðeins þar til ég áttaði mig á því að einhvern tímann hefði Ragnheiður Ásta auðvitað sjálf þurft að læra að lesa rétt í Útvarpið. Faðir hennar varð þulur 1941 og eiginmaður hennar gegndi starfinu líka. Í huga Ragnheiðar Ástu skipti tungutakið og öll smáatriðin svo miklu máli því Rás 1 skipti máli. Samfellan. Að standa vörð um eitt af akkerum þjóðlífsins. Þannig hafði það alltaf verið og þannig átti það alltaf að vera. Með hverri vaktinni tókst mér að standa ög betur undir þessum kröfum auk þess að vélrita skýrslur, reikna út hversu mikið bil þyrfti að fylla milli dagskrárliða og tónlist við hæfi í þau. Einu sinni stalst ég þó til að spila Bob Dylan og reyndist þetta hið besta starf með háskólanámi.
Kvöldvaktirnar aðra hvora helgi komu í minn hlut – nema dánarfregnir og jarðarfarir fyrst um sinn. Þar mátti einfaldlega ekkert klikka og var mér ekki treyst fyrir þeim fyrr en ég hafði sannað mig. Fyrr en Ragnheiður Ásta hafði kennt mér að lesa.
Ég votta fjölskyldu, vinum og samstarfsfólki Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur mína innilegustu samúð og þakka fyrir ljúfar minningar af merkilegri konu.
Örn Úlfar Sævarsson
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021