trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 23/04/2014

Hjartastrengur Þorsteins Pálssonar – fréttaskýring með sögulegu ívafi

Eftir Karl Th. BirgissonHjartastrengur

Það þarf soldið mikið til þess að Þorsteinn Pálsson reiðist. Í ríkisstjórninni sem hann leiddi sem forsætisráðherra 1987-1988 var honum einmitt fundið það til hnjóðs að vera litlaus, segja fátt og ekkert af því afgerandi – eiginlega að hann væri leiðinlegur.

Tiltekið var sérstaklega að hann fékk sér aldrei í glas með hinum strákunum, Jóni Baldvini og Steingrími. Þorsteinn var aldrei með í því partíi. Því lauk reyndar með því að þeir hinir hentu honum úr ríkisstjórninni og mynduðu síns eigins. Nánast í beinni útsendingu.

Eftir þá niðurlægingu steypti Davíð Oddsson Þorsteini af formannsstóli í Sjálfstæðisflokknum. Það voru ekki lítil átök.

Þannig er ára Þorsteins enn: Hann er orðvar, varkár, engar flugeldasýningar. Reyndar engar sýningar yfirleitt. Sumum fer það vel.

Greinarnar hans í Fréttablaðinu eru líka svona – að vísu mun efnismeiri og betri en hér áður, enda maðurinn frjálsari, en engin leiftur eða umtalsverð stílbrögð.

En: Þeim mun meiri tíðindi voru það hvernig Þorsteinn tjáði sig í viðtölum eftir að ríkisstjórnin ákvað að slíta samningaviðræðum við ESB rétt fyrir kvöldmat á föstudegi um miðjan febrúar. Það átti að gerast bæði hratt og hljótt.

Þá reiddist Þorsteinn og talaði um söguleg svik og jafnvel stærstu kosningasvik Íslandssögunnar. Hann notaði önnur viðlíka hugtök sem enginn vissi að til væru í hugmyndaheimi Þorsteins, þessa yfirvegaða íhaldsmanns. En lengi er von á einum.

Hann lýsti því sallarólegur – en þó greinilega brugðið, því að slíkt sést á Þorsteini – að hann og fjölmargir aðrir sjálfstæðismenn hefðu ákveðið að greiða flokknum sínum atkvæði vegna þess (og bara vegna þess) að Bjarni Benediktsson lofaði að viðræðum við ESB yrði ekki slitið án þjóðaratkvæðagreiðslu þar um. Nú hafði það verið svikið og það voru ófyrirgefanleg svik.

Hann talaði jafnvel um „brostinn streng í hjartanu.“

Ég segi ekki að hann hafi minnt á Steinunni Sigurðardóttur, en það stappaði nærri því. Þorsteinn Pálsson talar ekkert um hjartastreng sinn án þess að mikið búi undir – og sjá:

Núna, tveimur mánuðum síðar, er Sjálfstæðisflokkurinn óumflýjanlega klofinn. Formleg tilkynning verður send út innan skamms.

Slíkt og annað eins gerist samt ekki í tómarúmi eða án forsögu. Þorsteinn Pálsson finnur ekkert í sér hjartastrenginn bara sisona.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að molna í sundur síðastliðin fimm ár, eða allt frá því flokkurinn reyndi að horfast í augu við það sem gerðist hér í aðdraganda hrunsins og með því. Og mistókst.

Stóru skilin urðu þegar Endurreisnarnefnd flokksins, undir forystu Vilhjálms Egilssonar, skilaði skýrslu sinni á landsfundi 2011. Hún var nánast einn samfelldur áfellisdómur um helmingaskiptin, Seðlabankann, krónuna og flest annað sem Davíð Oddsyni er kærast.

Að skýrslunni unnu yfir tvö hundruð manns, „allt einlægt sjálfstæðisfólk,“ eins og þar segir. Hún var heiðarleg og í henni margar hugmyndir um framtíðina, en hún vildi líka vísa leiðina burt frá því „falska Íslandi, sem hrundi til grunna í bankahruninu í október 2008.“

Það þurfti samt ekki nema nokkra ódýra brandara í ræðu Davíðs á þessum sama landsfundi til þess að gera allt þetta starf að engu, undir vandræðalegum lághlátri þeirra sem bræktu af gömlum vana og ótta. Aðrir gengu úr salnum. Skýrslan hefur ekki verið nefnd einu orði síðan.

Það þurfti engan viðkvæman streng í hjarta til þess að „einlægt sjálfstæðisfólk“ undraðist vinnubrögðin. Og spyrði sig hvert flokkurinn væri að fara. Undir forystu hvers. Og hvað um hugmyndirnar?

Einn þeirra sem skrifuðu skýrsluna, Sigurður Örn Ágústsson, orðaði þetta svona í grein:

„Viðbrögð Davíðs voru þau að gera hana að umtalsefni í skemmtidagskrá á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Pungspark í alla þá sem höfðu lagt á sig mikla vinnu til að gera flokknum gagn, rétta af kúrsinn, leiðrétta augljóst rugl og reyna að marka flokknum stefnu til framtíðar.“

Það sem við sjáum brjótast fram núna í Sjálfstæðisflokknum gerist í þessu samhengi. Sá hluti Sjálfstæðisflokksins, sem vill horfast í augu við mistök, aðhyllist heilbrigt atvinnulíf og eðlilegt, alþjóðlegt viðskiptaumhverfi án helmingaskipta og pólitískra dilkadrátta, er farinn – eða er á förum. Þau leita sér annarra kosta.

Hinir eru að verjast því hvernig draugurinn af Davíð Oddssyni andar enn niður um hálsmálið á þeim. Fimm árum og fimmtán árum seinna.

Hitt, sem er farið, er sjálfstraust flokksins eftir tvo sögulega ósigra í síðustu tvennum þingkosningum, sem og ævintýralega vond staða hans í Reykjavík, sem eru hvorki tilviljun né sögulegt óhapp.

Og þar er skurðarpunktur og holdgervingur langrar sögu: Bjarni Benediktsson, núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, sem hefur tekið sér stöðu með Davíð Oddssyni, Sigmundi Davíð og gömlu háttunum, þannig að ekki verður aftur snúið núna, þótt ýmsir ráðherrar hafi nýlega reynt að fitja upp á „sáttum.“ Það reynist vera of seint.

Athygli vekur í grein Jórunnar Frímannsdóttur borgarfulltrúa – þar sem hún segir endanlega skilið við flokkinn – að hún fór „á fund DO fyrir landsfund 2010 til þess að ræða við hann hve mikil mistök flokkurinn væri að gera með sinni einstrengingslegu afstöðu.“

„DO“ var ekki formaður Sjálfstæðisflokksins árið 2010, heldur hafði Bjarni Benediktsson þá verið það í heilt ár. En Jórunni þótti réttast að leita þangað sem völdin voru og von um að halda flokknum saman.

Hún „hafði ekki erindi sem erfiði.“ Svo fór sem fór.

Einmitt þar eru Bjarni Benediktsson og Sjálfstæðisflokkurinn staddir núna: Í einstrengingi Davíðs Oddssonar.

Hinir hafa valið hinn ólíklega og óvænta hjartastreng Þorsteins Pálssonar.

Flokkun : Efst á baugi
1,735