trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 26/10/2016

Hagsmunir – en hagsmunir hverra?

medium_shb3185bkÉg sest stundum niður á leið minni í sturtu eftir hlaup á brettinu og aðrar æfingar í World Class. Sendi frúnni sms um að ég ætli í pottinn svo hún geti andlega farið að búa sig undir heimkomu karlsins, veitir ekki af.

Í gær vildi svo til að hleðslan á batteríinu í þráðlausu heyrnartólunum mínum kláraðist skyndilega. Þess vegna var ég ekki algerlega í mínum eigin heimi einsog ég er vanur, og komst ekki hjá því að heyra umræður nokkurra ungmenna, eða fólks í yngri kantinum í kringum mig. Eiginlega var það nú samt mest einræða eins þéttvaxins ungs manns sem hafði sjálfur séð um þann vöxt í ræktinni.

Hann talaði fjálglega um rugl í umræðunni, það væri ekkert þannig að vextir hér á landi væru hærri en annarsstaðar því í ljós hefði komið að sá munur hafði verið ýktur einhversstaðar. Allt væri í kaldakoli í Evrópu og nefndi nokkur lönd því til staðfestingar, ekkert væri hægt að bera okkur saman við Svíþjóð með neikvæðum stýrivöxtum og Grikkaland hrunið og ég veit ekki hvað og hvað. En í vandræðum átti ungi maðurinn samt með að kjósa, nema hann gæti náttúrulega ekki kosið flokka sem vildu ganga í Evrópusambandið og vitnaði í Jón Baldvin og brennandi hús (þótt öllu jöfnu væri hann greinilega aldrei sammála Jóni gamla Baldvini um nokkuð), ekki væri hægt að kjósa flokk sem hefði stutt Icesave (já ungt fólk er greinilega enn að tala um þann draug) og svo fjargviðraðist hann um að þetta væri allt ómögulegt og ekki alls ekki spennandi kosningar.

Venjulega þegi ég nú undir svona kringumstæðum – eiginlega undir öllum kringumstæðum þar sem ókunnugt fólk á í hlut. En gat ekki orða bundist, því það skiptir máli að standa upp og standa fyrir sínu máli, að stoppa ruglið eða gera sitt til þess. Því spurði ég hvort hann héldi í alvöru að allt væri í rúst í Evrópu? Og hvort hann teldi allt í lagi með vextina á Íslandi? Hvernig sem á hlutina væri litið væru vextir nú háir hér á landi. Hann svaraði því nú ekki og hélt áfram ræðuhöldum um að óverðtryggðir vextir væru nú ekkert háir hér og hvað ég héldi að þeir væru og horfði fram í tímann, þetta 30-40 ár.

Ég sagðist viss um óverðtryggðir vextir yrðu örugglega 10-15 prósent þar sem verðbólgan færi örugglega af stað og vextirnir myndu hækka. Hann hélt nú ekki, bankar væru að lána fasta vexti óverðtryggða. Nú þekki ég það ekki út í hörgul en reyndi að benda á – jafn hallærislegt og það nú er – að ég væri það gamall að ég hefði nú reynt eitt og annað varðandi krónuna okkar og verðbólguna. En hann hlustaði ekki á það, og heldur ekki þegar ég hélt því fram að banki sem biði fasta, lága óverðtryggða vexti til 30-40 ára á Íslandi í íslenskum krónum myndir hreinlega enda á hausnum.

Nei hinn þrekvaxni gekk á braut, nefndi Icesave og svo skemmtilega í lokin að ég ætti nú að lesa Hayek — eða var það vinur hans sem skellti því fram þegar hópurinn gekk á brott?

Ja hér, hugsaði ég nú. Held að það sé alveg ljóst hvað þessi ungi maður mun kjósa – og vinir hans líka. En heldur fannst mér hann fastur í kreddum og vinir hans þá væntanlega líka.

Þegar hann sagði að vextir væru miklu hærri annarsstaðar en haldið væri fram hér heim var hann spurður af félaga sínum af kvenkyni afhverju því væri haldið fram. Jú það væri áróður sagði hann, einhverjir væru að halda þessu fram í áróðursskyni.

Þetta vakti mig til umhugsunar. Hver myndi hafa hag af því að vera með slíkan áróður. Eða eigum við að segja fyrir áróðri fyrir því að ganga í Evrópusambandið? Hverjir myndu hagnast á inngöngu og hefðu þar af leiðandi hag af því að vera með falsáróður líkt og ungi maðurinn hélt fram að væri í gangi?

Hefur Össur Skarphéðinsson þannig hagsmuna að gæta? Mun hann hagnast á því. Mun Benendikt Jóhannesson græða á því að ganga í Evrópusambandið persónulega. Ég sé það ekki. Sé ekki hverjir gætu haft þannig hag, ég sé fólk sem vill lægri vexti, eðlilegra viðskiotaumhverfi, betri neytendavernd og já sem vill minni spillingu og síðast en ekki síst fólk sem einfaldlega áttar sig á því að örmyntin íslensk króna er ekki á vetur setjandi og eina leiðin að öðrum gjaldmiðli er að ganga í ESB. Svo sagði Seðlabankinn á 700 blaðsíðum.

Ég sé hinsvegar marga sem hafa hag af óbreyttu ástandi, einsog ungi maðurinn var að verja og endurómaði þar margt sem ég áður hef heyrt. Kvótagreifar hafa af því persónulegan hag sem telja má í krónum og aurum, eða öllu heldur milljörðum í beinhörðum erlendum gjaldeyri. Þeir hafa hag af þvi að fá að halda áfram að hagnast, selja í evrum og borga kaup í krónum. Auðmennirnir, eina prósentið, hefur klárlega hag af óbreyttu ástandi, ástandi þar sem einu skattarnir sem lækka eru þeirra skattar. Auðmennirnir sem geyma fé sitt á Tortóla þeir vilja ekki breytingar. Auðmennirnir sem nú eru tilbúnir að kaupa upp Ísland, sem bíða færis, nema það sem þeir eru þeigar búnir að kaupa einsog Borgun, bíða færis að kaupa allt það sem ríkið nú þarf að selja. Þeir vilja óbreytt ástand til að halda áfram að kaupa ódýrt, auðmennirnir sem komu inn í landið með eitthvert brot af óheiðarlegu fé sínu og komu inn með það á 20 prósenta afslætti. Fengu böns af krónum til að kaupa Ísland. Þetta fólk hefur allt persónulegan hag af óbreyttu ástandi, af því að Ísland gangi aldrei inn í Evrópusambandið. Því þá yrði smám saman kippt fótunum undan séríslenskri spillingu og slökkt undir kjötkötlum þessa fólks. Mér finnst augljóst hvar hagsmunirnir liggja og hverjir hafa í raun hagsmuni af áróðri.

En þeir sem hafa Icesave og Hayek efst í huga í umræðu dagsins munu seint átta sig á því.

Ég er hinsvegar búinn að fullhlaða heyrnartólin.

 

736006

Flokkun : Pistlar
1,484