trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 15/09/2017

Guð hvað mér líður vel

Guð hvað mér líður vel í upplausn dagsins. Stjórnin sem ætlaði að skila 44 miljarða afgangi á fjárlögum er fallin um sjálfa sig. Stjórnin sem ætlaði að stofna langtíma sparisjóðsbók fyrir ríkið og leggja inn á hana miljarða króna er sprungin. Stjórnin sem var að einkavæða heilbrigðiskerfið, skólakerfið og þjóðvegina án þess að viðurkenna það, hún er ónýt. Hún rifnaði í sundur af eitri sem hún byrlaði sér sjálf.

Ríkisstjórn sem með fullar hendur fjár ákveður að það sé meira virði að skila ríkisbókhaldi með 44 miljarða afgangi en veita fé til almannatrygginga, sjúkrahúsa, elliheimila, skóla, lista, vísinda og þjóðvega er ekki góð stjórn.

Ríkisstjórn sem ætlar að stinga miljörðum í sparibauk sem hægt er að láta í hendurnar á fjárglæframönnum við næsta hrun líkt og Seðlabankinn gerði í síðasta hruni í stað þess að styrkja innviði svo að þjóðin geti mætt slíkum hamförum; slík stjórn er ekki góð stjórn.

Ráðherrar sem pukrast, ráðherrar sem hafa skilning á málum en gera ekkert í þeim, ráðherrar sem segja ósatt, ráðherrar sem brjóta lög; slíkir eru ekki góðir ráðherrar.

Það var ekki góð ríkisstjórn sem gaf upp andann í nótt. En hún er dauð og það er gott. Þess vegna er hægt að vonast eftir stjórn sem hugsar um fólk og hagi þess fremur en sparibauka. Guð hvað mér líður vel með voninni.

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,516