Flugur í augum
Líf þitt er sigling á lystisnekkju
á lygnu fljóti allsnægtanna.
Á bökkunum drjúpa af döðlupálmum
dýrar veigar og glúteinfrítt manna.
Og þér eru bornar þrírétta krásir
og þrúgur í klösum bústnum og vænum
og þú heyrir nafnið þitt mjúklega malað
í mildum og þýðum aftanblænum.
Og vínið flæðir og vinirnir gleðjast
því vellystingarnar fylla hvert hjarta
og yfir þér vakir himinninn heiður
sem heilagt loforð um framtíð bjarta.
En skyndilega er ský fyrir sólu
og skuggalegt umhorfs á fljótsins bökkum;
visnaðir garðar og hálfhrunin hreysi
og hrúga af soltnum og skítugum krökkum.
Með kviðinn þaninn þau kalla til þín.
Þó koma ei hljóð nein úr þeirra munni.
En þrúgandi eymdin og ringureiðin
rústa samstundis stemningunni.
Svo þú þýtur undir þiljur og kvartar
því þetta var ekki partur af dílnum;
að börnum með flugur í brostnum augum
byðist að fokka í lúkkinu og stílnum.
En áfram er siglt og útsýnið lagast
með iðgræna skrúðgarða báðum megin.
Þú sérð flugur í augum fátækra barna;
ekki finngálknið í þínum eigin.
Davíð Þór Jónsson
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021