trusted online casino malaysia
Gestastofa 02/06/2014

De profundis – úr undirdjúpunum

Eftir Bryndísi SchramFlamenco

Móðir jörð skartar sínu fegursta hér um þessar mundir. Kletturinn okkar er umvafinn gróðri í öllum regnbogans litum, gulum, rauðum, grænum og bláum – en aðallega þó fjólubláum. Blómin brjóta sér leið upp úr djúpum sprungum í átt til sólar. Þau klifra upp hvítkalkaða húsveggi og gefa lífinu lit og angan. Jafnvel kaktusar hafa tekið gleði sína og blómstra eins og öll hin. Sólin er komin vestur fyrir klettinn, eldrauð og bústin, og ætlar að fara að leggja sig. Og þegar hún er horfin í hafið, og myrkrið skollið á, hefst flamencohátíð í þorpinu okkar. Við erum á leiðinni.

Göturnar eru svo þröngar, að bílar geta ekki mæst, og í hvert sinn sem einn slíkur nálgast, verðum við að þrengja okkur upp að hallandi veggnum og bíða, á meðan hann sniglast fram hjá. Á torginu sitja prúðbúnar konur og spjalla. Þeim liggur hátt rómur og hlæja mikið, á milli þess sem þær líta til með börnum sínum, sem eru á hlaupum fram og til baka um marmaralagt torgið. Þetta er sá tími dags, sem fólk slakar á og gengur út til móts við sólina, sem verður mildari eftir því sem líður á daginn.

Fólkið á klettinum fer sjaldan á ströndina. Það hlífir sér við sólinni, kann að lifa með henni, enda er húð kvennanna hvít sem lín og stingur í stúf við tinnusvart hárið, sem þær klippa helst ekki. Það eru bara karlarnir, sem eru veðurbarðir, með djúpar hrukkur í andlitinu og stirðir til gangs eftir áralangt strit á ökrunum. Einu sinni var hér ræktaður sykurreyr, sem svo lagðist af. Ávextirnir eru árstíðabundnir, ólífur, plómur, appelsínur, avokado, mangó, bananar, sítrónur og fleira og fleira. Jörðin er gjöful hér allt um kring. Fólkið í þessu þorpi átti þess ekki kost í æsku að ganga í skóla né læra að lesa. Karlarnir gerðust daglaunamenn og urðu að láta sér nægja þau laun, sem landeigendur skömmtuðu – oft ekki annað en mat oní hungruð börnin.

En bíðum aðeins með þetta – við erum á leið á flamencohátíð á La Traviesa. – Orðið þýðir eiginlega þverbiti – sem gæti haft táknræna merkingu um eitthvað, sem er öðru vísi en annað – t.d. að vera þversum, eða óþekktarangi – La Traviesa er alla vega ólíkur öllum öðrum stöðum hér í þorpinu. – Hann stendur á klettasillu með slútandi bjargið fyrir ofan og neðan. Eldhúsið og barinn eru grafin inn í klettinn, en gestir sitja úti undir berum himni. Við komum rétt mátulega, því að sólin er að renna sér á bak við fjallsbrúnina, og innan skamms er orðið aldimmt. Þá er kveikt á kertum, sem varpa dularfullri birtu á blómin og dúkana og gestina, sem bíða spenntir eftir komu listafólksins.

Gítarleikarinn er þegar sestur í stólinn og farinn að spreyta sig – hita upp. Það er engu líkara en að hann hafi fæðst með hljóðfærið í höndunum, þessi strákur, og að það hafi verið ást við fyrstu sýn. Tónlistin er honum í blóð borin, kannski pabbi hafi sýnt honum fyrstu gripin. Gítarinn liggur þétt að brjósti hans, og fingurnir gæla við strengina eins og hinn fullkomni ástmaður – einn í heiminum, hugfanginn af mjúkum tónum, sem flögra titrandi út í nóttina. Þetta lofar góðu.

Og hver hefði svo trúað því, að þessar litlu píslir – dansarinn og söngvarinn, gætu tekið svona miklum breytingum. Það var varla, að ég tæki eftir þeim, þegar þær komu inn í fylgd gítarleikarans. Grannvaxnar og feimnislegar í gallabuxum og stuttermabolum, rétt eins og skólastelpur í fyrsta sinn að koma við á bar.

Þarna stóðu þær allt í einu við hlið gítarleikarans í nýju gervi – algerlega óþekkjanlegar. Búnar að fara fram á klósett, setja upp hárið, mála varirnar eldrauðar og strjúka með kolamola eftir augnbrúnunum. Báðar klæðast svörtu silki með rauðu ívafi – lit ástarinnar. Blússurnar falla þétt að grönnum líkömum og pilsin hrynja eins og stríðandi foss að fótum þeirra. Þær bera höfuðin hátt og horfa ögrandi á eitthvað, sem við hin sjáum ekki og skynjum ekki. Þær eru sem af öðrum heimi, komnar í ham, hnarreistar og þokkafullar. Minna á hryssur í látum, spyrna við fótum, stappa í gólfið, eru til í allt.

Og nú hefst dansinn. Söngkonan leiðir, gítarleikarinn fylgir henni, og dansarinn túlkar. Saga Sígauna verður ekki sögð á annan hátt. Það er saga hörmunga – fátæktar, óréttlætis, grimmdar, beiskju og haturs. Ástar? Já, en oftast þó ástarsorgar, eða ástar í meinum. Lífið er miskunnarlaust, – og þessi dans er líka miskunnarlaus. Hann er svo ofsafenginn, svo sársaukafullur og hamslaus, að það jaðrar við, að maður fari hjá sér. Gráti af skömm. Hann segir allt, sem segja þarf um óréttlætið í heiminum, misskiptinguna og mannvonskuna.

Ég veit ekki hvort ég grét yfir mannvonskunni eða fegurðinni, þegar dansinum lauk. Ég var örmagna, en samt alsæl. Þetta var allt svo ótrúlega fallegt – þrátt fyrir ljótleikann. Danskonan unga blæs ekki úr nös, heimtar meira. Aftur og aftur heldur hún áfram að ögra okkur, stolt og skapmikil, heiftúðug í tjáningu sinni.

Þetta var svona eins og að upplifa eldgos, hrikaleg átök í iðrum jarðar, allt að springa – og svo dúnalogn á eftir. Enginn sagði orð, bara hugsaði sitt. Flamencokvöldinu var lokið, kertin útbrunnin og tími kominn til að kveðja. Söngkonan og dansarinn voru aftur komnar í gallabuxurnar, bara venjulegar stelpur, sem voru að fá sér í svanginn með gítarleikaranum á barnum. Mig langaði mest til að taka utan um þær og þakka fyrir frábæra sögustund – og ég gerði það líka.

Þorpið var sofnað, þegar við snerum heim á leið. Blómaangan barst að vitum okkar, skarður máni lýsti okkur leið um þröngar götur. Þetta er þorp fátæka mannsins. Örlög íbúanna eru ekki ólík örlögum Sígaunanna. Misskiptingin í þjóðfélaginu var ótrúleg, alveg fram á okkar daga. Daglaunamaðurinn átti líf sitt undir örlæti landeigendanna, algerlega réttlaus og aleinn í lífsbaráttunni. Ómegð var mikil, skólaganga fjarlægur draumur. Örlögin voru lík, en skapgerðin ólík. Þessi tryllti dans Sígaunanna segir okkur sannleikann, en hinir þegja um hann.

Bryndís Schram

Flokkun : Menning, Pistlar
1,246