trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 02/12/2020

Atið og leikurinn

Karl Th. Birgisson skrifar

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins virðast líta á stjórnskipan landsins sem sinn flokkslega prívat leikvöll.

Þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir dómsmálaráðherra (innanríkisráðherra) sat undir gagnrýni í lekamálinu svokallaða sagði hún hana vera ljótan pólitískan leik.

Úr ráðuneyti hennar hafði verið lekið skjali með viðkvæmum persónulegum upplýsingum um einstakling – að vísu flestum upp lognum – í því skyni að gera hlut ráðuneytisins skárri í máli hans.

Hann Birna gaf í skyn að skjalið gæti verið komið frá Rauða krossinum eða eiginlega alls staðar annars staðar að en úr ráðuneytinu hennar.

Þegar lögreglan hóf rannsókn á þætti ráðuneytisins í málinu kallaði hún lögreglustjórann í Reykjavík til sín og lagði hart að honum að hætta eða takmarka rannsóknina mjög. Hún hafði semsagt bein og afgerandi afskipti af rannsókn lögreglunnar á eigin ráðuneyti.

Sá ágæti lögreglustjóri sneri sér fljótlega að öðrum störfum.

Síðar kom í ljós að skjalið hafði verið skrifað í ráðuneytinu og lekið þaðan. Aðstoðarmaður Hönnu Birnu, Gísli Freyr Valdórsson, var í kjölfarið dæmdur fyrir brot á hegningarlögum. Hann fór þá á sjóinn eins og í leit að aflátsbréfi, en sneri fljótlega aftur fílefldur í þágu flokks og málstaðar.

Hanna Birna sagði réttilega af sér embætti enda mega dómsmálaráðherrar ekki hafa afskipti af rannsóknum lögreglunnar. Það er eiginlega mjög beisik. Nema hjá ráðherrum flokka sem líta á völd sem herfang og einkamál.

Enda sagði Hanna Birna ekki af sér af því að hún hefði gert neitt rangt. Hún var fórnarlamb í ljótum pólitískum leik, að eigin sögn. Og miklu frekar af því að hún er kona.

Núnú. Sigríður Á. Andersen fékk sem dómsmálaráðherra það verkefni að skipa dómara við nýtt dómsstig, landsrétt. Okkur er það vonandi í fersku minni.

Sigríður fékk til sín niðurstöður nefndar um hverjir væru hæfastir, en leizt ekkert á þær. Raunar heldur ekki sumum í Viðreisn, sem sátu þá með henni í ríkisstjórn.

Afstaðan til dómskerfisins var nokkurn veginn þessi: Ég á þetta, ég má þetta.

Ráðherrann tók þá að sér að umturna niðurstöðunum og færa fólk til á lista yfir þá hæfustu. Ekki einasta var röksemdafærsla hennar fyrir nýrri niðurstöðu á köflum beinlínis fáránleg – til dæmis um fyrri reynslu af dómarastörfum – heldur sinnti hún ekki lögbundnum skyldum sínum um sjálfstæða rannsókn, úr því að hún ætlaði að breyta niðurstöðum nefndarinnar.

Alþingi kórónaði svo verknaðinn með því að samþykkja allt heila klabbið frá ráðherranum.

Íslendingar hafa, sumum til armæðu, skrifað undir alls kyns samninga um mannréttindi og aðra sæmilega siðaðra manna hætti, til dæmis um skipan dómara. Glöggur lögmaður taldi að Sigríður Andersen hefði brotið gegn mannréttindasáttmála Evrópu og nú liggur niðurstaðan fyrir.

Skýr og klár brot. Grafalvarleg meiraðsegja. Hún hlustaði ekki á ítrekaðar viðvaranir frá ráðgjöfum sínum.

Þetta er niðurstaða beggja dómstiga Mannréttindadómsstóls Evrópu. Samhljóða á efra stiginu.

Hvað gerir einn fyrrverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins þá? Þegar svo afgerandi niðurstaða liggur fyrir?

Hún kallar málið allt og niðurstöðuna „pólitískt at.“ Ekki sízt gagnvart henni persónulega, segir hún við Fréttablaðið.

Hins vegar sé dómstóllinn að senda víðtækari skilaboð. Sem er rétt.

Mannréttindadómstóll Evrópu er að senda skilaboð til valinkunnra alþjóðlegra flokkssystkina Sigríðar Andersen, sem ráða í kunnum lýðræðisríkjum á borð við Tyrkland, Ungverjaland og Pólland.

Þar hafa ráðamenn nefnilega verið að skipa dómara eftir pólitískum hentugleikum rétt eins og Sigríður Andersen. Og Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur reyndar áratugum saman.

Það virðist ekki hvarfla að Sigríði að í hvers konar félagsskap hún er, með Erdogan, Orban og þeim. Og hvers vegna embættisglöp hennar eru notuð til að láta þá vita að slík vinnubrögð séu hreint ekki í lagi.

Nei. Mannréttindadómstóll Evrópu er nefnilega að ráðast inn á prívatleikvöll Sjálfstæðisflokksins og þar með hennar.

Þess vegna er niðurstaða hans pólitískt at. Gegn henni sjálfri persónulega í þokkabót.

Og hún er náttúrlega fórnarlambið.

Ekki réttarfarið í landinu.

Karl Th. Birgisson

1,573