trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 29/08/2017

Að borða sandpappír

Í leiðara Morgunblaðsins í dag, 29.08. ´17, er fjallað um þau hörmulegu mistök sem gerð voru við byggingu húss Orkuveitu Reykjavíkur. Það er hægt að taka undir sumt af því sem þar er sagt. Þar á meðal lokaorðin : “Augljóst er að þegar í stað verður að setja af stað opinbera rannsókn á málinu. Stærð þess, leynibrall frá fyrsta degi og hagsmunir almennings gera slíkt óhjákvæmilegt.”

Í mbl.is var framan af morgni frétt sunnan úr Keflavík. Þar segir meðal annars:

“Íbúar í Reykja­nes­bæ vöknuðu í nótt til að loka glugg­um sín­um vegna svækju sem tal­in er ber­ast frá kís­il­veri United Silicon í Helgu­vík. Í morg­un braust bræl­an inn þegar fólk opnaði úti­dyrn­ar hjá sér …. Nokkr­ir vöknuðu svo í nótt vegna bruna­lykt­ar … Þeir segja að í morg­un hafi meng­un­in enn verið tölu­verð.. „Ég er dauð í háls­in­um. Eins og ég hafi verið að borða sandpapp­ír,“ skrif­ar einn íbúi á Face­book …

Eygló Anna Tóm­as­dótt­ir, hjúkr­un­ar­fræðing­ur og fjög­urra barna móðir, er meðal þeirra sem passaði upp á að glugg­arn­ir væru lokaðir í gær og nótt. Hún seg­ist ekki setja ungt barn sitt út í vagn að sofa á dag­inn og hafi ekki gert slíkt um hríð vegna kís­il­vers­ins. … Er fjór­tán ára son­ur henn­ar kom heim um klukk­an 22 í gær­kvöldi fylgdi hon­um mik­il svækja að utan. Sjö ára son­ur Eygló­ar fór á gol­fæf­ingu í gær en þurfti að hætta vegna höfuðverkja. Golf­völl­ur­inn er í næsta ná­grenni kís­il­vers­ins.

„Ég get ekki haft börn­in mín úti. Þau búa ekki við það frelsi sem þau bjuggu við áður, að geta andað að sér hreinu og fersku lofti,“ seg­ir Eygló sem tel­ur mögu­legt að ástandið í bæn­um og þau skil­yrði sem þar hafa skap­ast stand­ist ekki ákvæði barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna. …  „Maður veit bara ekki hvert maður á að snúa sér, hvert maður á að leita. Um­hverf­is­stofn­un beit­ir sér ekki al­veg eins og hún þyrfti að gera, ég veit ekki hvar land­lækn­ir og sótt­varna­lækn­ir eru. Og svo er það rík­is­stjórn lands­ins.“ Eygló hvet­ur ráðherra rík­is­stjórn­ar­inn­ar til að kynna sér málið með eig­in aug­um og mæta á staðinn. „Þau eru vel­kom­in í heim­sókn til mín. Ég get boðið þeim næt­urg­ist­ingu og kaffi.““

Það bar til fyrir nokkrum dögum að óbreyttur nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd alþingis fór fram á að nefndin sem slík brygði sér bæjarleið til þess að skoða kísilverið í Helguvík. Formaður nefndarinnar taldi það af og frá, sagði nei, og bætti því við, að “ekki væri hægt að efna til slíkrar heimsóknar í náinni framtíð.” Ef til vill var svar hans reist á orðum hins kokhrausta öryggisvarðar verksmiðjunnar sem sagði að þetta væri bara skaðlaus töppunarreykur.”

Þau orð sem leiðarahöfundur Morgunblaðsins viðhefur um Orkuveituhúsið eiga einnig við um alla sögu United Silicon í Helgu­vík: “Augljóst er að þegar í stað verður að setja af stað opinbera rannsókn á málinu. Stærð þess, leynibrall frá fyrsta degi og hagsmunir almennings gera slíkt óhjákvæmilegt.”

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,233