trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 19/11/2016

Móses og hjómið

img_5398

Móses Akatugba í Norræna húsinu

Móses Akatugba sat saklaus í fangelsi í Nigeríu í heilan áratug, hann var pyntaður, neyddur til að skrifa undir játningu, það tók mörg ár fyrir hann að fá mál sitt tekið fyrir og að koma fyrir dómara. Dómarinn hlustaði síðan ekki neitt á Móses og hann var dæmdur út frá yfirlýsingu sem fékkst með pyntingum. Hann losnaði úr fangelsi í fyrra eftir baráttu mannréttindasamtaka og fyrir tilstilli bréfamaraþons Amnesty International. Meðal annars undirskrifta frá Íslandi og þar á meðal minni undirskrift. Ef ekki fyrir þá baráttu ætti Móses ekki líf og væri nú líklega áfram á dauðadeild og biði aftöku í heimalandi sínu.

Hann sagði sögu sína í Norræna húsinu í vikunni og hún var átakanleg. Rán var framið en lögreglan í Nígeríu beið eftir að hættulegir og vopnaðir ránsmennirnir hyrfu á braut. Þeir handtóku þá Móses sem var staddur ekki fjarri og skutu annan mann til bana, Moses var skotinn í handlegginn, kúlan fór í gegn. Lögreglan þurfti nauðsynlega á handtöku að halda og það skipti þá engu máli hver væri handtekinn, þess vegna eru fátækir ungir menn einsog Móses bara gripnir. Hann var pyntaður á hryllilegan hátt, neglur dregnar af honum, kertavax látið leka á hann o.s.frv.

Í fangelsinu engin von, ekkert líf.

En mannréttindasamtök í Nígeríu tóku mál hans upp, Amnesty tók hann fyrir í bréfamaraþoninu 2014 og í fyrra var hann látinn laus. Undirskriftin mín hún hjálpaði til.

Það er svo afskaplega ódýrt og auðvelt að skrifa nafnið sitt í hlýjunni og frelsinu á Íslandi en það skiptir máli. Þetta einfalda atriði bjargar lífi.

Eftir að ég hafði hlustað á átakanlega sögu Mósesar sem hann flutti af einurð og æðruleysi þótt hún greinilega tæki á hann, og hann ekki að segja hana í fyrsta sinn fór ég aftur í vinnuna. Þar fletti ég fyrir tilviljun ritinu 300 stærstu fyrirtækin, sem ég var með á leiðinni á bókasafnið.

Ég staldraði við töflu yfir verðmæti íslenskra fyrirtækja, markaðsvirðið það er að segja. Fór þá að hugsa um nýlega frétt um að markaðsvirðið hefði lækkað við það að formanni Sjálfstæðisflokksins mistókst að mynda stjórn og gömul (en samt ung) málfarslögga af mínum gamla vinnustað og samverkamaður fékk umboð til stjórnarmyndunar. Hverju sætti það? Hverjir eru það sem meta þetta virði? Hverslags verðmæti eru það, þessi markaðsverðmæti íslenskra fyrirtækja? Eru það ungir menn um þrítugt í jakkafötum sem kosta tvenn mánaðarlaun verkamanns, nú eða kennara, sem um það véla? Hvaða hugsun er það í þeirra haus sem lækkar þetta verðmæti? Og eru þetta raunveruleg verðmæti eins og hann Völundur lét þá Gunna og Felix leita að í besta jóladagatalinu – ever?

img_5402

Því þegar maður ber saman líf Mósesar, veru hans í fangelsinu og breytinguna við að losna út, saman við tölur á pappír ákveðnar af ungum gaurum í jakkafötum þá er ekki spurning hvar hin raunverulegu verðmæti liggja. Verðmæti sem eru tölur á pappír eru hjómið eitt.

Verðmæti sem rýrna við það að Katrínu Jakobsdóttur er sýnt verðskuldað traust eru ekki merkileg verðmæti í mínum huga. Reisn Mósesar og æðruleysi eru hinsvegar verðmæti sem hægt er að viðurkenna sem raunveruleg.

Er ekki mál að linni? Er ekki tími til að hætt að láta númer á blöðum, uppdiktuð verðmæti stjórna lífi okkar? Er ekki mál til komið að fólk á þessari jörð hætti að láta fjármálaöflin sem engin raunveruleg verðmæti skapa, en heimta allt fyrir sig, stjórna öllu smáu og stóru?

Mér finnst það.

Flokkun : Pistlar
1,279